Danskir menntskælingar í heimsókn
Fimmtudaginn 12. mars kom danskur menntaskólabekkur í heimsókn í FSu. Þetta voru 19 nemendur á 2. ári (17-18 ára) og 2 kennarar úr Odder Gymnasium, sem er skammt sunnan Árósa á Jótlandi.
Danirnir skoðuðu skólann og heimsóttu nokkra hópa í dönsku. Nemendur í Dan 212 höfðu undirbúið spjall í litlum hópum, og í 403 var boðið upp á fyrirlestra meðal annars um íslenska fatahönnun og hljómsveitir, skólakórinn og félagslífið í skólanum, íslenska hestinn og tómstundir unglinga á Suðurlandi. Þá fræddu Danirnir okkar fólk um skólann sinn, bæinn og stórborgina Árósa.
Fyrir heimsóknina í FSu höfðu Danirnir ferðast nokkuð um Suðurland og kynnt sér orkuöflun og náttúrufyrirbæri. Einnig höfðu þeir kynnst starfi björgunarsveita og Landhelgisgæslu, því ein stúlkan í hópnum slasaðist á göngu í Reykjadal og eftir að björgunarsveitin i Hveragerði hafði hlúð að henni flutti þyrla Landhelgisgæslunnar hana á slysadeild.
Þess má að lokum geta að Danirnir voru hrifnir af því að nemendur í FSu skyldu ekki nota útiskó innan dyra og töldu það góða hugmynd fyrir sinn skóla.