Upphaf og framkvæmd að stofnun FSu

Fjölbrautaskóli Suðurlands

1981   30  ára  2011

Upphaf og framkvæmd að stofnun hans.

Umræður, undirbúningur og setning grunnskólalaga 1974  hleypti mikill umræðu af stað í þjóðfélaginu.   Menningarþörf fór ört vaxandi. Veitt var heimild í lögum frá 1973 til stofnunar fjölbrautaskóla í Reykjavík til reynslu. Þar var til viðbótar ein grein sem veitti  öðrum heimild fyrir slíkri starfsemi. Ríkið hafði fram til þessa kostað  framhaldsnámið í menntaskólunum. Með stofnun fjölbrautaskólanna  urðu sveitarfélögin  þátttakendur í stofnun og rekstri. Aðild  sveitarfélaganna hleypti nýjum krafti í framhaldsskólana. Kostnaðarskipting  var ákveðin að  ríkið greiddi 60%.  en sveitarfélögin 40%

Alþingismenn Suðurlands.

Á haustþingi 1972  fluttu  tveir alþingismenn Suðurlandskjördæmis þeir Ágúst Þorvaldsson og Ingólfur  Jónsson lagabreytingafrumvarp um menntaskóla.  Samkvæmt því  skyldi stofna  menntaskóla á Austurlandi og annan á  Selfossi. Flutningsmenn  höfðu ekki í huga hefðbundinn bóknámsskóla heldur „valgreinaskóla“ sem byggi ungt fólk undir þátttöku í atvinnulífinu  og hagnýt störf eins og segir í greinargerðinni

Sýslunefndir.

Allt frá árinu 1972 höfðu sýslurnar þrjár og Selfosshreppur unnið saman að uppbyggingu Iðnskólans á Selfossi.  Hinn 12. okt. 1978 gerðu  þessir eignaraðilar, þ.e. Menntamálaráðuneyti, Selfosskaupstaður og sýslurnar þrjár með sér samning um uppbyggingu verknámshúss á Selfossi með kostnaðarskiptingu 60:40%.   Síðan gerðist það 17. jan. 1983 að sýslunefndir Árnes-. Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslna gerðu rekstrar- og stofnkostnaðarsamning við Bæjarstjórn Selfoss.  Í apríl 1983 hóf ný skólanefnd störf. Í nefndinni voru  Hjörtur Þórarinsson,  Jón Guðbrandsson og Ólafur Helgi Kjartansson frá Selfossbæ.  Páll Lýðsson og Garðar Hannesson frá Árnessýslu, Böðvar  Bragason frá Rangárvallasýslu og Einar Oddsson og nokkru síðar Sr. Sigurjón Einarsson frá V-Skaftafellssýslu.   Þessi samstarfssamningur var eðlilegt framhald af góðu samstarfi sýslufélaganna. Samstarf sýslunefnda og hreppsnefnda var traust og náin. Þessir aðilar höfðu það markmið að koma fjölbrautanáminu í örugga uppbyggingu til heilla fyrir íbúa héraðsins. Það kom einnig til álita að taka þetta samstarf á vegum Samtaka  sveitarfélaga (SASS),  en að vel athuguðu máli einfaldaði það alla framkvæmd að taka samninginn á vegum sýslunefndanna. Allir voru fúsir til framkvæmdanna.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga voru stofnuð 12 apríl 1969 Markmið þeirra var að vinna að hagsmunamálum sveitarfélaganna í Suðurlandskjördæmi einkum í atvinnu-, efnahags-, mennta-, skipulags-, samgöngu- og félagsmálum

Á aðalfundi 1970 var á dagskrá.. Skólamál kjördæmisins  Iðnfræðslan á Suðurlandi og nýjar námsbrautir  við gagnfræðaskólanna. Á aðalfundi 1973 var á dagskrá að starfrækja Fjölbrautaskóla á Suðurlandi  Á aðalfundi 1980 var til umræðu Fjölbrautaskóli á Selfossi og Vestmannaeyjum og samstarf við aðra skóla. Á aðalfundi 1983 var á dagskrá Fjölbrautaskólinn og tengsl við aðra skóla, fiskvinnslu-, vélstjórnar-, íþrótta-, hússtjórnar- og búnaðarbraut og á  aðalfundi 1984 er látin í ljós  ánægja með FSu. En löggjöf um framhaldsskóla vantar.

Fræðsluráð Suðurlandskjördæmis.

Á aðalfundi 1974 kaus SASS  í fræðsluráð kjördæmisins. Fræðsluráðið beitti sér fyrir framgangi þeirra málefna sem samþykkt voru  hjá SASS  Á þeim vettvangi undir stjórn Jóns R. Hjálmarssonar fræðslustjóra var stöðugt unnið við undirbúning samþykktar frá  aðalfundinum 1973  og fylgt  eftir  við öll tækifæri í héraði og  í Menntamálaráðuneyti. Á fundi Fræðsluráðs 18. febr. 1980 var samþykkt „að gengið yrði  formlega frá stofnun Fjölbrautaskóla á Suðurlandi“ Þessi samþykkt var send  Bæjarstjórn Selfoss með þeirri ósk að Bæjastjórnin vinni áfram að framgangi málsins

Bæjarstjórn Selfoss.

Bæjarstjórn Selfoss tók forystu að stofnun Fjölbrautaskólans og rak hann á eigin ábyrgð fyrstu 2 árin. Skólanefnd voru kosin á apríl 1981 hana skipuðu Hjörtur Þórarinsson, Óli Þ. Guðbjartsson og Steingrímur  Ingvarsson. Þrjár stofnanir mynduðu kjarnann í þessum nýja skóla.  Iðnskólinn á Selfoss, sameign sýslufélaganna á Suðurlandi, Öldungadeildin í Hveragerði  og Framhaldsdeild Gagnfræðaskólans á Selfossi.   Kennsluhúsnæði var á mörgum stöðum og hlupu nemendur á milli skólastofanna. Þar kom upp nafnið  Hlaupabrautaskólinn.  Heimir Pálsson var ráðinn skólameistari og  hann starfaði í 2 ár. Dr. Maggi Jónsson var ráðinn hönnuður skólans.

Bygging skólans.

Það væri langur kafli í sögu skólans að rekja byggingarsöguna og öflun fjár til þessarar framkvæmdar.  Strax á næsta ári var valin byggingarnefnd, sem starfaði í umboði skólanefndar. Þar unnu  næstum samfleytt allan tímann. Erlendur Hálfdánarson, fjármálastjóri, Guðmundur Sigurðsson form. nefndarinnar, Guðmundur Kr. Jónsson byggingastjóri  og Garðar Hannesson. Byggingarsagan  skiptist í þrennt. Aðalbyggingunni var skipt í tvo áfanga og síðasti stóri áfanginn var íþróttahúsið Iða   Samningar við ríkið tók mikinn tíma. Þeir gagnrýndu vandlega  teikningar af þessu nýstárlega húsi, sem Dr. Maggi Jónsson lagði fyrir þá.

Brátt fór að gæta óþolinmæði meðal  starfsmanna skólans yfir því hversu erfitt var að sinna kennslunni. Kennslan fór fram á mörgum stöðum og gerði allt starfið erfitt. Kennslustaðir urðu flestir 9 á Selfossi.  Gerð var framkvæmdaáætlun  haustið 1985 um að kennsla gæti hafist  í nýju húsi 1. okt 1986. Á fjárlögum 1986 var það naumt skammtað, að engin von var um að það tækist. Heildar fjárþörfin var  80 milljónir. Þá var farin sú leið að eignaraðilar samþykktu lántöku allt að 50 milljónir. Lánið fékkst hjá Iðnaðarbankanaum. Það tók formann skólanefndar 3 klst. að undirrita 500 skuldabréf hvert á 100.000, kr. Þessi lántaka leysti málið. Bygging hússins fór á fullt skrið. Tekinn var fyrir helmingur  af heildarbyggingunni Odda.  Skuldabréfin voru seld eftir því sem byggingunni miðaði áfram.  Flutt var inn í nýja skólann 10, jan. 1987. Gleðin var mikil þegar hlaupabrautinni var lokað og kennslan hófst í Þessari glæsilegu byggingu.undir stjórn Þórs Vigfússonar.

Áhrif skólans á samfélagið.

Það er erfitt að meta og verðleggja þau miklu áhrif sem skólinn hefur haft og mun hafa á samfélagið. Menntunin verður aldrei metin til fjár. Búseta ungmenna  í foreldrahúsum lengdist a.m.k. um 4 ár. Kostnaður heimila vegna menntunar ungmenna lækkaði. Á annað hundrað manns hafa  þarna atvinnu. Margfeldis áhrifin eru mikil sem tengjast þessari starfsemi. Starfsmenn skólans hafa flutt inn mikla þekkingu sem nýtist í héraðinu.   Menningarleg áhrif eru  stöðugt að vaxa og koma í ljós. Háskólamenntunin er að festa rætur í skjóli þess umhverfis sem Fjölbrautaskólinn hefur skapað á þessum 30 árum. Nemendur skólans hafa myndað félagsleg tengsl sín á milli. Þessi tengsl munu efla samkennd og samstöðu þessa unga fólks, sem er að setjast hér að og  taka forystu á mörgum sviðum í atvinnulífi Suðurlands.  Þessi stofnun er einn fjölmennasti vinnustaður á Suðurlandi og þegar á heildina er litið þá er enginn vinnustaður  okkur dýrmætari en Fjölbrautaskóli Suðurlands.  

Hjörtur Þórarinsson.

Síðast uppfært 08. september 2011