Fimleikaakademía
Aðsetur: Engjavegi 50
Kennitala: 690390-3029
Sími: 482-1505
Póstfang: fimleikar@umfs.is
Fjöldi iðkenda: Haust 2019: 21
Þjálfarar:
Tanja Birgisdóttir og Mads Pind Lochmann Jensen
Æfingaaðstaða:
Æft er í fimleikasalnum í Baulu, þrisvar í viku.
Fjöldi eininga: Fimleikaakdaemían raðast sem valgrein og fyrir hvern áfanga fá nemendur 5 einingar fyrir.
Hvað þýðir að vera hluti af akademíu FSu:
Það að vera hluti af fimleikaakdemíu Fsu skilar sér í auknum aga til iðkenda og gerir þá ábyrgari á sinni íþróttaþjálfun og námi. Það að stunda nám við íþróttaakademíur FSu eru án efa góð meðmæli fyrir iðkandann þegar sótt er um í framhaldsnám og vinnu
Hvað fær iðkandinn út úr því að vera í akademíu FSu:
Í fimleikaakademíunni er mikið unnið með markmiðssetningu og leiðir að markmiðum sem gerir iðkendur meðvitaðri um þjálfunina. Markmiðsetning er mikilvæg í skóla en ekki síst í lífinu sjálfu og nemendur læra að tileinka sér markmiðssetningu í akademíunni. Þjálfunin í akademíunni er mjög einstaklingsbundin. Unnið er með tækniatriði og fínpúss á æfingum sem skilar sér í betri færni í íþróttinni og þá sérstaklega í flóknari stökkum. Nemendur hafa haft á orði að það sé gott að æfa tækniatriði úthvíldur fyrri part dags í stað þess að vera alltaf á æfingum seinni partinn og á kvöldin. Þessi punktur er mjög gildur því það er mikilvægt að vera með einbeitingu þegar tækniatriði eru æfð. Akademían gefur þeim tækifæri á að stunda tækniþjálfun fyrri partinn sem er stór plús.
Forsaga: Fimleikaakademían var stofnuð haustið 2008. Nemendur hafa verið á bilinu 14-27 frá stofnun. Fyrsti strákurinn innritaðist í akademíuna 2011. Olga Bjarnadóttir sá um þjálfun fimleikaakademíunar frá upphafi og allt til haustsins 2016 þegar Arna Hjartardóttir tók við, en hún þjálfaði út vorið 2018. Tanja Birgisdóttir og Mads Pind sjá um þjálfun akademíunnar í dag. Akademían hefur skilað nemendum góðum árangri og stutt við bakið á þeim sem hafa náð inná alþjóðleg mót.
Verð: Haustönn í akademíunni kostar 79.900 og vorönnin 81.900. Allir iðkendur fá æfingafatnað frá Jako.
Umsögn frá núverandi nemanda:
Kristín Hanna Jóhannesdóttir
Fimleikaakademían er klárlega það skemmtilegasta sem ég geri í skólanum. Það er frábært að geta mætt í skólann og fá að gera það sem manni finnst skemmtilegast. Akademíuæfingarnar nýtast alltaf mjög vel og oftar en ekki vildi maður að tíminn væri lengri. Þjálfunin er einstaklingsbundin og er skipulögð eftir þeim markmiðum sem hver og einn setur sér og vill bæta yfir önnina, sem er mikill kostur. Við förum mikið í tækniæfingar bæði í fimleikasalnum og í lyftingasalnum, sem skilar góðum árangri. Við lærum mikið um markmiðasetningu og hvernig á að setja sér markmið rétt þannig að maður nái þeim. Í akademíunni einbeitum við okkur að smáatriðum í stökkum sem hjálpar okkur að fínpússa þau og gerir okkur að betri fimleikamönnum fyrir vikið. Í lok annar er mjög gaman að líta aftur og sjá bætingarnar sem maður hefur náð yfir önnina.
Aukaæfingin skapar meistarann!
Umsögn frá fyrrverandi nemanda:
Unnur Þórisdóttir nemi í sjúkraþjálfun og fyrrverandi nemandi í Fimleikaakademíu FSu
Ég var svo lánsöm að fá að vera meðlimur Fimleikaaademíu FSu fyrstu 4 starfsárin og útskrifaðist vorið 2012. Á þessum tíma þróaðist akademían úr því að vera frábær í að verða rosalega frábær!
Að mínu mati voru öll vinnubrögð til fyrirmyndar svo sem fagleg uppbygging, samsetning bóklegra og verklegra æfinga, innsýn í næringarfræði, þjálffræði og auðvitað fimleikaþjálfunin sjálf sem var viðbót við stífar æfingar í meistaraflokki Umf. Selfoss.
Þótt það bætist við æfingaálagið, þá var akademian þannig uppbyggð að maður fékk aldrei nóg. Þetta var aldrei yfirþyrmandi mikið, ekki af minni hálfu allavega en auðvitað bættust við æfingar og það kom alltaf tími þar sem maður var þreyttur. Þá þurfti bara að fara fyrr að sofa og hugsa betur um bæði sál og líkama.
Á mótatímabili var mjög gott að fá aukaæfingar í akademíunni þar sem hægt var að einbeita sér betur að stökkunum ásamt því að fá að æfa í mjúka dýnu inn á milli allra æfinganna sem gerðar var í harða dýnu.
Á akademiuæfingum fáum við tækifæri til að einbeita okkur meira að smáatriðum heldur en á meistaraflokks æfingum. Þarna gátum við brotið allt niður í minnstu búta og æft tæknina betur. Þó mér hafi ekki fundist neitt rosalega gaman að æfa alla þessa tækni til að byrja með, þá nýttist hún mjög vel þegar átti að setja saman stökkið í heild sinni. Tækniæfingarnar urðu þó með tímanum skemmtilegri, sérstaklega þegar maður fann mun á stóru stökkunum og fór að sjá framfarir. Ég finn það einnig mjög vel að eftir að ég útskrifaðist frá akademíunni þá hefur tæknilegi hlutinn dalað aðeins.
Akademiuæfingarnar voru alltaf skemmtilegar og alltaf tilhlökkunarefni. Enda voru þarna komin saman frábærir krakkar og frábærir þjálfarar. Til að byrja með voru þetta einungis stelpur en svo komu 1 og 1 strákur og á síðustu önninni minni voru þeir 2. Þetta voru einfaldlega skemmtilegustu tímarnir í skólanum og aldrei datt manni í hug að skrópa. Þjálfararnir sem unnu með okkur yfir þennan tíma eiga miklar þakkir skildar og þá sérstakleg hún Olga mín, en hún var upphafsmaður, stoð okkar og stytta í gegnum súrt og sætt. Þessir tímar munu sitja eftir sem mjög góð minning þegar ég hugsa til baka í FSu, ásamt þó nokkrum öðrum skemmtilegum áföngum.