Sérstaða FSu
Fjölbrautaskóli Suðurlands er bæði bóknáms- og verknámsskóli sem þjónar nemendum af öllu Suðurlandi. Daglega ferðast nemendur til og frá skólanum úr uppsveitum Árnessýslu, úr Reykholti, frá Flúðum, Hvolsvelli, Hellu, Hveragerði, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri.
Fjölbrautaskóli Suðurlands hefur markað sér þá sérstöðu að halda úti íþróttaakademíum í samstarfi við ýmsa aðila. Körfuboltaakademía er starfrækt í samstarfi við Sveitarfélagið Árborg og Körfuknattleiksfélag FSu. Knattspyrnuakademía er starfrækt í samstarfi við Knattspyrnuakademíu Íslands. Handknattleiksakademía er starfrækt í samstarfi við Handknattleiksdeild Ungmennafélags Selfoss og Fimleikaakademía er starfrækt í samstarfi við Ungmennafélag Selfoss sem og Frjálsíþróttaakademía.
Skólinn rekur eina stærstu Starfsbraut landsins. Þar gefst nemendum kostur á fjögurra ára námi sem lagað er að þörfum hvers og eins.
Við skólann er starfrækt þriggja ára braut í hestamennsku.
Fjölbrautaskóli Suðurlands er eini framhaldsskóli landsins sem býður nám í söðlasmíði.
Fjölbrautaskóli Suðurlanda hefur um langa hríð átt gott samstarf við grunnskólana á skólasvæðinu. Grunnskólanemendur sem hafa staðið sig vel og eru í 10. bekk grunnskóla eiga möguleika á að taka framhaldsskólaáfanga og próf í FSu. Einnig geta þeir grunnskólanemendur, sem lokið hafa grunnskólanámi að mati skólastjórnenda grunnskólanna (sbr. lög um grunnskóla), hafið nám í FSu um áramót.