Brottfall
Ástundun
Ef nemandi, sem skráður er á endanlega hópalista, er ekki mættur þegar vika er liðin af önninni skal kennari rannsaka málið.
Eins og segir í skólasóknarreglum ber nemendum að sækja allar kennslustundir samkvæmt stundaskrá. Kennarar hafa m.a. það hlutverk að fylgjast með mætingum nemenda sinna og fari nemandi ekki eftir skólareglunum, hvað þetta varðar, skulu þeir grípa inn í skv. reglunum sem hér er lýst.
1. Viðvörun
Kennari varar nemanda sinn við þegar fjarvistir hafa náð helmingi leyfilegra fjarvista í áfanga.
2. Skýringa leitað
Haldi nemandi áfram að safna fjarvistum í áfanga, þrátt fyrir viðvörun skal kennari ganga úr skugga um hvort viðhlítandi skýring sé þar á. Í slíkum tilvikum er nauðsynlegt að spyrjast fyrir um nemandann, t.a.m. um vottorð á skrifstofu, hjá náms- og starfsráðgjafa og aðstoðarskólameistara. Kennari ræðir einnig við forráðamenn nemenda undir 18 ára aldri.
3. Nemandi strikaður út úr áfanga
Fáist engin viðhlítandi skýring og að öllu ofangreindu könnuðu telst málið endanlega frágengið. Kennari skrifar þá "Rauða spjaldið" og skilar til áfangastjóra. Nemandinn er að lokum strikaður út úr áfanganum og fær falleinkunn (F).
4. Andmælaréttur nemanda
Nemandi getur þó ávallt vísað máli sínu til stjórnenda skólans en þá þarf hann að skrifa bréf þar sem málsbætur hans eru tíundaðar. Meðan mál nemandans er skoðað mætir hann áfram í viðkomandi áfanga. Framhaldið ræðst af niðurstöðu stjórnenda.
Ef nemandi vill hætta í áfanga skal hann ræða við náms- og starfsráðgjafa um málið. Ef hann er enn ákveðinn í að hætta verður ákvörðun hans tilkynnt til áfangastjóra. Við úrsögn er tölvupóstur sendur á viðkomandi kennara og forráðamenn nemanda undir 18 ára aldri.
Ef nemandi vill hætta í skólanum skal hann ræða við náms- og starfsráðgjafa um málið. Sé nemandinn undir 18 ára aldri skal náms- og starfsráðgjafi strax hafa símasamband við forráðamann. Náist ekki í forráðamann í síma skal skrifa honum bréf vegna þessa. Ef ákvörðun nemandans er endanleg skal náms- og starfsráðgjafi tilkynna úrsögnina til áfangastjóra.
Verkefnaskil, námsvandi, framkoma
Ef misbrestur verður á verkefnaskilum nemenda eða um greinilegan námsvanda er að ræða skal kennari snúa sér til náms- og starfsráðgjafa sem kallar á nemandann og leitar með honum lausna á vandanum. Ef hins vegar er um agavandamál að ræða skal kennari snúa sér til aðstoðarskólameistara sem kallar nemandann til sín og leitar með honum lausna. Finnist engin lausn á vanda nemandans eða nemandinn sýnir engan vilja til samstarfs skal hann hætta í viðkomandi áfanga. Hætti nemandinn skal kennari tilkynna það skriflega til áfangastjóra.