Náms- og starfsval
Þegar hugað er að náms og starfsvali er mikilvægt að ígrunda eigin áhugasvið og skoða starfaheiminn, náms- og starfsmöguleika. Mikilvægt er að skoða námsframboð og tengja eigin áhugasvið við náms- og starfsmöguleika. Til þess að geta gert þetta er mikilvægt að fara í sjálfsskoðun, ígrunda eigin áhuga, styrkleika, gildismat og fleira. Einnig er mikilvægt að skoða hvaða námsleiðir og störf eru til og tengja þetta tvennt saman.
Náms- og starfsferill einstaklinga er í þróun alla ævi og mikilvægt er að átta sig á því að hægt er að byggja á allri reynslu ásamt því að það má skipta um skoðun og breyta til. Gott getur verið að spyrja sig að því hvaða skref vil ég taka næst á mínum náms- og starfsferli?
Áhugasviðskannanir
Áhugasviðskannanir eru verkfæri sem hægt er að nota til þess að aðstoða sig við að kortleggja eigin áhugasvið. Áhugasviðskannanir segja þér ekki hvar þinn áhugi liggur eða hvað þú átt að leggja fyrir þig, heldur ættu áhugasviðskannanir frekar að nýtast sem leiðarvísir til þess að auðvelda leitina og beina þér jafnvel í ákveðnar áttir. Áhugasviðskannanir gefa upplýsingar um áhuga en ekki hæfileika eða getu. Áhugasviðskannanir geta aðstoðað við að segja til um hvar áhugasvið þitt liggur og þannig vísbendingar um áhvaða starfssviði líklegt er að þú munir blómstra. Oft taka nemendur áhugasviðskannanir undir lok grunnskóla.
Áhugasviðskannanir byggja allar á kenningu John L. Holland um áhugasviðin sex
Hjá námsráðgjöfum skólans geta nemendur tekið hugasviðskannanirnar ,,í leit að starfi" og Bendill.
Einnig eru náms- og starfsráðgjafar skólans alltaf tilbúnir til að svara spurningum og aðstoða nemendur við sína náms- og starfsvalsþróun og ekki er alltaf þörf á að taka áhugasviðskönnun.
Gagnlegar vefsíður fyrir nemendur sem tengjast náms- og starfsvali
- www.naestaskref.is er íslenskur upplýsingavefur um nám og stöf. Þar er að finna mikið af upplýsingum um bæði námsleiðir og störf og tenging þar á milli. Þar er einnig hægt að svara spurningum sem tengjast starfavísi sem getur gefið vísbendingar um hvaða störf geta passað við þitt áhugasvið. Við hvetjum ykkur til að skoða síðuna vel og fræðast um það sem er í boði.
- http://www.namogstorf.is/ er íslenskur upplýsingavefur um starfsnám á Íslandi. Þar er að finna mikið af upplýsingum um starfsnámsleiðir, iðn- list- og verkgreinar. Þar má finna upplýsingar um námsleiðir á Íslandi í bílgreinum, byggingagreinum, garðyrkju, hljóð&mynd, hönnun&handverki,listgreinum, málm&véltækni, matvælum &þjónustu, prent&miðlun, rafiðngreinum, snyrtigreinum, og tölvum og tækni.
- Onetonline.org er erlendur upplýsingavefur þar sem hægt er að finna störf eftir áhugasviðum, ásamt því að skoða hvaða áhugasviði tiltekin störf falla undir. Þessi vefur getur verið gagnlegur þeim sem vita hvar áhugasvið sitt liggur.
- Námsvalshjól Háskóla Íslands getur aðstoðað nemendur við að finna út hvaða grunnnám í Háskóla hentar þeim og til þess að fá upplýsingar um hvaða námsleiðir í grunnnámi er hægt að læra í Háskóla Íslands. Mundu að skoða einnig námsval annarra Háskóla á Íslandi sem og erlendis ef hugur þinn stefnir þangað.
- Það er mikilvægt fyrir nemendur sem stefna á nám í Háskóla að kynna sér aðgangsviðmið námsbrauta. Almennt eru inntökuskilyrði í Háskóla á Íslandi stúdentspróf, en einnig getur verið krafa um nauðsynlegan undirbúning í ákveðnum námsgreinum, svo sem að hafa lokið ákveðið mörgum einingar í ákveðnum greinum. Mikilvægt er fyrir nemendur sem stefna í Háskóla að kynna sér þetta snemma á framhaldsskólaferlinum svo þau hafi örugglega nægjanlegan undirbúning undir það nám sem þau stefna á eftir framhaldsskóla.
- Edbook – Háskóli Íslands — Edbook er vefsíða á vegum raunvísindadeildar Háskóla Íslands sem býður upp á upprifjunarefni í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði.
- Undirbúningsnámskeið fyrir inntökupróf í læknisfræði, tannlæknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði í Háskóla Íslands er í boði árlega í Keili. Allar upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu þeirra.