Viðbrögð við áföllum
Viðbrögð við áföllum
Hvað er áfall?
Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs merkir orðið áfall m.a. slys, tjón, mótlæti, þungbær reynsla eða sjúkdómur. Dauðsföll og slys gera ekki boð á undan sér og því er fólk misvel í stakk búið að taka á áföllum og vinna úr þeim. Oft kemur það í hlut kennara að tilkynna nemendum og samstarfsfólki um slíka hluti og því er gott að hafa einhvern ramma til að styðjast við þegar slíkt ber að höndum.
Viðbrögð skólans við slysi eða dauða
Fyrstu viðbrögð:
1. Starfsmaður á skrifstofu fær staðfestingu á andláti eða slysi hjá aðstandendum, lögreglu eða sjúkrahúsi.
2. Áfallaráð skólans kallað saman. Fyrsti fundur ætti að vera stuttur, þar sem verkum er skipt og fyrstu aðgerðir skólans ákveðnar.
3. Skólameistari kallar starfsmenn skólans saman. Starfsmönnum er tilkynnt hvað gerst hefur og hvernig skólinn hyggst taka á málum.
4. Nemendum skólans sagt frá atburðinum. Allir nemendur boðaðir á sal. Segja má nemendum skólans frá atburðum í skólastofum, aðeins þarf að gæta þess að þeir fái fregnina eins fljótt og auðið er.
Æskilegt er að leyfa nemendum að ræða um atburðinn og líðan sína.
5. Skólameistari hefur samband og samráð við aðstandendur varðandi aðgerðir skólans.
6. Sé um dauðsfall að ræða:
a) Húsvörður flaggar í hálfa stöng að tilkynningu lokinni.
b) Ritari setur fram dúkað borð og kveikir á kerti.
7. Í lok skóladagsins koma starfsmenn skólans saman með áfallaráði. Farið er yfir nöfn þeirra sem tengjast atburðinum s.s. ættingja og vini. Aðgerðir næstu daga ræddar.
8. Samskipti við lögreglu og fjölmiðla eru í höndum skólameistara eða staðgengils hans.
Viðbrögð næstu daga:
1. Hlúð að nemendum. Nemendum gefinn kostur á að vinna með tilfinningar sínar. Boðið upp á einstaklingsviðtöl. Nauðsynlegt getur reynst að fá utanaðkomandi aðstoð til að álag verði ekki of mikið á starfsfólk skólans, t.d. sálfræðing, prest, lögreglu, áfallateymi við heilsugæslustöðvar o.s.frv.
2. Hafi nemandi eða starfsmaður látist, er hins látna minnst með sameiginlegri athöfn í umsjá prests. Ritari sér um að minningabók liggi frammi sem og mynd af viðkomandi.
3. Húsvörður flaggar á jarðarfarardag.
4. Haldið áfram næstu vikur og mánuði að hlúa að nemendum og starfsfólki skólans. Gefa skal gaum að áfallastreitu meðal nemenda og starfsmanna skólans. Boðið verður upp á hópviðtöl eða einstaklingsviðtöl ef þörf er á undir stjórn til þess hæfra einstaklinga. Áfallaráð metur hvort þörf sé á viðtölum.
Alvarleg slys/dauðsfall í skóla:
1. Sá starfsmaður, sem kemur fyrstur að slysi/dauðsfalli í skóla, sendir einhvern nærstaddan strax á skrifstofu til að kalla/hringja á hjálp og tilkynna skólameistara um slysið/dauðsfallið. Starfsmaðurinn reynir að halda nemendum frá vettvangi og veitir þá aðstoð sem þörf er á.
2. Skólameistari leitar staðfestingar á að hringt hafi verið í 112 (á sjúkrabíl og lögreglu eða vinnueftirlit eftir atvikum).
3. Skólameistari biður viðkomandi starfsmann að skrá niður vitni að slysinu/dauðsfallinu.
4. Skólameistari lætur starfsfólk vita og kennarar tilkynna nemendum um slysið/dauðsfallið. Aðrar aðgerðir sbr. liði nr. 4 - 7 í kaflanum um fyrstu viðbrögð.
5. Við slys skal starfsmaður frá skólanum fylgja þeim slasaða á sjúkrahúsið og vera þar með honum þar til foreldrar/forráðamenn/aðstandendur koma á staðinn.
Andlát starfsmanns:
1. Samstarfsmönnum strax tilkynnt um látið.
2. Samband er haft við aðstandendur, til dæmis með heimsókn og/eða blómasendingu.
3. Fulltrúar skólans bjóði aðstoð við útfararundirbúning og útför.
4. Samstarfsmenn sjái til þess að minningargrein eða kveðja birtist í blaði.
5. Kennsla felld niður útfarardag samkvæmt nánari ákvörðun.
Andlát maka/barns starfsmanns
1. Skólameistari leitar staðfestra upplýsinga um andlátið.
2. Skólameistari kallar áfallaráð saman.
3. Skólameistari ákveður í samráði við viðkomandi starfsmann hvernig/hvort nemendum og öðru starfsfólki skuli tilkynnt um andlátið.
4. Ef mögulegt er skal þess gætt að náin skyldmenni hins látna, sem eru við nám eða störf við skólann, fái fregnina sérstaklega.
5. Skólameistari fer heim til starfsmanns og færir honum samúðargjöf og kveðju frá starfsfólki og nemendum.
Andlát/alvarlegt slys nákomins ættingja nemenda (foreldris/systkinis eða annarra nátengdra ættingja):
1. Skólameistari/aðstoðarskólameistari tilkynnir (áfallaráði skólans og) kennurum sem kenna viðkomandi nemendum um atburðinn.
2. Náms- og starfsráðgjafi/skólastjórnendur/umsjónarkennari hafi samband við hlutaðeigandi nemendur og kanni líðan þeirra og undirbúi komu þeirra í skólann.
3. Ef atburðurinn verður á skólatíma og nemendur tengdir honum eru í skólanum skal sækja þá úr tíma, þeim tilkynnt um atburðinn og hlúð að þeim eins og hægt er. Þar sem mismunandi er hvernig fólk tekur áföllum þarf skólinn að vera undir það búinn að bjóða fram þá aðstoð sem nauðsynleg er til að nemendur fari ekki út úr skólanum í þannig ástandi að þeir geti orðið sjálfum sér og öðrum til skaða.
4. Kannaður verði vilji viðkomandi nemenda til frekari viðbragða og óskir þeirra virtar.
Áfallaráð
Áfallaráð fer með verkstjórn þegar válegir atburðir gerast sem snerta nemendur og starfsmenn skólans. Mikilvægt er að þeir, sem veljast í áfallaráð, geti unnið undir miklu álagi og séu vel undir það búnir að mæta fólki sem er hrætt, hnuggið eða sorgmætt.
Hlutverk áfallaráðs
Í meginatriðum er hlutverk áfallaráðs að gera vinnuáætlun svo bregðast megi fumlaust og ákveðið við, þegar áföll hafa orðið, s.s. bráð veikindi, alvarleg slys, dauðsföll eða aðrir atburðir sem líklegir eru til að kalla fram áfallastreitu og/eða sorgarviðbrögð.
Lykilatriði er að í hverju tilviki sé mótuð skýr og afdráttarlaus vinnuáætlun um hver sinni hvaða hlutverki, í hvaða röð og hvernig beri að bregðast við. Mikilvægt er að huga vandlega að óskum fjölskyldna þeirra sem hlut eiga að máli hverju sinni. (Við skipulag áfallahjálpar og viðbragða, þarf að hafa í huga alla þá einstaklinga sem koma að starfsemi skólans s.s. nemendur, aðstandendur, kennara, stjórnendur, skólaliða og starfsfólk í eldhúsi auk annarra í stoðþjónustu).
Áfallaráð skal sjá til þess að allt starfsfólk fái kynningu á því hvernig bregðast skuli við áföllum. Áfallaráð skal sjá til þess að kennarar fái stuðning og hjálp.
Áfallaráð skal funda strax að hausti og athugar hvort breyting hafi orðið á aðstæðum nemenda eða starfsfólks vegna alvarlegra slysa, veikinda, dauðsfalla eða annarra áfalla. Áfallaráð skal ræða þau áföll sem upp hafa komið og taka ákvörðun um hvort eða til hvaða aðgerða skal gripið. Skrifstofa skólans skal halda sérstaklega utan um slíkar upplýsingar.
Skipan áfallaráðs í FSu:
Skólameistari / aðstoðarskólameistari - Soffía Sveinsdóttir / Sigursveinn Sigurðsson
Náms- og starfsráðgjafi - Agnes Ósk Snorradóttir
Félagsráðgjafi - Halla Dröfn Jónsdóttir
Sviðsstjóri - Guðfinna Gunnarsdóttir
Ritari - Inga Magnúsdóttir
Fulltrúi úr öryggisnefnd - Karl Ágúst Hoffritz
Áfallaráð metur þörf á að leita til eftirtalinna aðila:
Læknir
Prestur
Formaður nemendafélags
Verkaskipting
1. Skólameistari er formaður ráðsins og hann kallar áfallaráðið saman þegar þörf krefur. Hann er yfirleitt sá aðili innan skólans sem fyrst er haft samband við vegna válegra tíðinda og hann hefur þá yfirsýn sem til þarf. Hann getur tekið ákvarðanir strax. Hann sér að jafnaði um samskipti við fjölmiðla.
2. Hlutverk náms- og starfsráðgjafa er fyrst og fremst að skipuleggja sálræna skyndihjálp við þann / eða þá sem fyrir áfalli verða. Mikilvægt er að þessi skipulagning sé þannig að sá, sem fyrir áfalli verður, fái strax þá aðstoð og aðhlynningu sem nauðsynleg er.
3. Sviðsstjóri er tengiliður við aðra kennara skólans og gætir þess að boð komist til allra á sem skemmstum tíma. Hann getur einnig veitt fólki leiðbeiningar og leiðrétt sögusagnir.
4. Ritari miðlar og tekur við upplýsingum. Ef hringt er og beðið um að ná í nemanda úr tíma, er mjög nauðsynlegt að ritarinn hafi á blaði hjá sér ákveðnar spurningar áfallaráðs til að komast að alvarleika málsins. Þannig er komið í veg fyrir að nemanda sé t.d. tilkynnt um dauðsfall beint í gegnum símann. Með vitneskju sinni um eitthvað alvarlegt skal ritari hafa samband við skólameistara.
5. Fulltrúi úr öryggisnefnd tilkynnir vinnueftirliti um slys ef við á og sér til þess að fyrstu hjálpar búnaður sé til staðar.
Fyrstu viðbrögð kennara í kennslustund eftir válegan atburð:
Eftir að válegur atburður hefur átt sér stað er mjög mikilvægt að kennara sé auðveldað eins og kostur er að koma inn í kennslustund. Gott er að fyrir liggi nokkur vel valin orð sem hann getur stuðst við í upphafi, t.d. ef dauðsfall hefur átt sér stað. Dæmi:
A.
Kæru nemendur!
Ég flyt ykkur sorgarfregnir. Við höfum fengið vitneskju um það að nemandinn / kennarinn xxxxxxx hafi lent í alvarlegu slysi. Samkvæmt heimildum okkar liggur hann / hún á sjúkrahúsi og er ástand hans / hennar mjög alvarlegt.
Ég vil biðja ykkur öll að hugsa vel til hans / hennar. Ef þið hafið einhverjar fleiri spurningar bendi ég ykkur á að hafa samband við þá aðila sem sitja í áfallaráði. Þeir eru: skólameistari, aðstoðarskólameistari, náms- og starfsráðgjafi, sviðsstjóri, ritari og fulltrúi úr öryggisnefnd skólans.
B.
Kæru nemendur!
Ég flyt ykkur sorgarfregnir. Nemandinn /Kennarinn xxxxxx lést í dag / í gær af völdum slyss / vegna sjúkdóms.
Ég vil biðja ykkur öll að hugsa til hans / hennar með hlýhug og þakka fyrir þann tíma sem leiðir ykkar lágu saman. Einnig sendum við fjölskyldunni hugheilar samúðarkveðjur.
Ef þið hafið einhverjar spurningar bendi ég ykkur á að hafa samband við þá aðila sem sitja í áfallaráði. Þeir eru: skólameistari, aðstoðarskólameistari, náms- og starfsráðgjafi, sviðsstjóri, ritari og fulltrúi úr öryggisnefnd skólans.
Hvernig á að koma fólki í hjólastólum af efri hæðum við rýmingu Odda:
1. Leggja skal áherslu á að þeir nemendur/kennarar sem eru í hjólastólum og ekki tengjast starfsbraut séu sem mest í kennslustofum á jarðhæð.
2. Rafmagnshjólastólar. Sé einstaklingur í rafmagnshjólastól staddur á annarri eða þriðju hæð þegar rýma þarf Odda skal stuðningsfulltrúi/kennari sem er með honum sjá til þess að einstaklingurinn sé tekinn úr stólnum og borinn niður stigana. Þegar niður er komið skal finna skrifborðsstól (skrifstofa) helst með örmum og setja viðkomandi í hann og fara með hann út.
3. Aðrir hjólastólar. Kennari sem er með viðkomandi einstakling í kennslutíma skal sjá til þess að einstaklingurinn sé borinn niður og komið út úr Odda og þá helst í skrifborðsstól með örmum. Bera má viðkomandi í hjólastólnum sé það talið henta. Ef kennari er sjálfur í hjólastól skal hann fá nemendur til að bera sig niður. Vegna nemenda á starfsbraut sem staddir eru á 3. hæð er mikilvægt að stuðningsfulltrúar/kennarar taki þá sem eru í hjólastólum og beri þá niður eða sjái til þess að þeir séu bornir niður í sérstökum burðarstólum sem eru til á þriðju hæð.
Viðbrögð við brunaboðun
Fyrsta hringing:
Stjórnendur og húsvörður athugi orsök hringingar.
Kennarar og nemendur haldi kyrru fyrir í stofunum.
Önnur hringing:
Húsið rýmt, kennarar læsi stofum.
Jarðskjálfti
Þegar jarðskjálfti verður á að:
Halda ró sinni
Gott er að krjúpa - skýla - halda
Ekki hlaupa út í óðagoti
Gæta að hlutum sem kunna að falla
Fara út um leið og tækifæri gefst
Aðstoða hvert annað