Þrátt fyrir verkfall kennara við FSu á síðustu önn tókst með samheldni og lausnamiðuðum aðferðum að koma námskipi FSu heilu í höfn. Allir lögðust á árarnar, stjórnendur, starfsfólk og nemendur. Uppskeran var laugardaginn 11. janúar og skólinn litaðist gulum ljóma.
Miðvikudaginn 15. janúar verður kennt með hraðkennslufyrirkomulagi. Markmiðið er nemendur hitti alla sína kennara þar sem farið verður yfir námsáætlanir og fleira. Um 30 mínútna kennslustundir er að ræða.
Undirbúningur skólastarfs í FSu kallast einu nafni RÓL sem á sér merkingar eins og að vera komin á fætur eða vera á ferli eða röltinu svo eitthvað sé nefnt. Að minnsta kosti hefur eitthvað vaknað sem er komið á hreyfingu. Eins og skólastarf. Svo má finna þetta áhugaverða orð í bókmenntum eins og í bjarta sálminum: „Nú er ég klæddur og kominn á ról, kristur Jesús veri mitt skjól.” Og meira að segja í myrkviðum Grýlukvæðis stendur: „Nú er hún gamla grýla dauð, gafst hún upp á rólunum.” Hún gafst sem sagt upp á að hreyfa sig og er það okkur öllum til góðs.