Frábær ferð til Póllands
Eftir útskrift fór tæplega 60 manna hópur kennara FSu og maka þeirra í náms- og kynnisferð til Póllands. Ferðin hófst laugardaginn 22. maí þegar flogið var til Varsjár. Þar voru tveir skólar heimsóttir, Czacki-framhaldsskólinn og Gimnazjum 36 grunnskólinn. Margt er hægt að læra af þessum skólum þó ekki sé húsbúnaður endilega samkvæmt nýjustu tísku. Einnig var pólska kennarasambandið í Varsjá heimsótt. Þriðjudaginn 25. maí var haldið til Kraków þar sem til stóð að heimsækja verknámsskóla en þar var því miður ekki hægt að taka á móti hópnum vegna flóða í ánni Vislu. Hluti hópsins fór í kynnisferð í Auschwitz-fangabúðirnar og frægar saltnámur í Wieliczka í nágrenni Kraków. Ferðin tókst í alla staði vel undir leiðsögn Þorleifs Friðrikssonar hjá Söguferðum.