Mínútu þögn
16.11.2015
Stjórn nemendafélags skólans kom með þá hugmynd strax daginn eftir árásirnar á París að nemendur og kennarar skólans myndu vera með mínútu þögn til að sýna samúð og skilning í verki. Flott hugmynd sem strax var ákveðið að gera að veruleika. Þegar birtist síðan grein í fjölmiðlum í dag þar sem ESB hvatti Evrópu til að sameinast í einnar mínútu þögn til minningar um fórnarlömbin ákváðum við að vera með. Nemendur og kennarar fóru út úr kennslustofum og fram á svalir skólans. Formaður nemendafélagsins sagði nokkur orð og síðan sameinuðust allir í þögn í eina mínútu. Sendum fallegar kveðjur og hugsanir yfir hafið. Guðbjörg Grímsdóttir, forvarnar- og félagslífsfulltrúi.