AÐ HALLA HURÐINNI OG FARA Á GOSSTÖÐVARNAR

VETTVANGSFERÐIR eru mikilvægar í öflugu skólastarfi. Þá er hurðinni að kennslustofunni hallað og gengið út í lífið í þeim tilgangi að skoða og rannsaka það sem finna má og sjá þar fyrir utan: mannlíf og menningu, listsköpun af ýmsu tagi, atvinnulíf og nýsköpun, opinberar stofnanir og hús sem vert er að heimsækja og síðast en ekki síst ÍSLENSKA NÁTTÚRU og undur hennar.

Mánudaginn 11. október síðastliðnum fóru nemendur í jarðfræði að frumkvæði og undir leiðsögn Heklu Þallar Stefánsdóttur landfræði og jarðfræðikennara í vettvangsferð að gosstöðvunum sem kenndar hafa verið Fagradalsfjall á Reykjanesi. Tilgangur og markmið var að fræðast um eldgos, hraun, hraunrennsli og kanna steindir. Það var engin virkni í gýgnum þennan daginn en nemendur sáu brennisteinsútfellingar þekja gýginn og fundu steindirnar olivin og plagíóklas sem einkenna gjarnan basískt berg. Falleg hraunreipi var einnig hægt að sjá í hrauninu. Nemendur ræddu við erlenda ferðamenn á staðnum sem gengu á hrauninu og þeir upplýstu þá um hætturnar sem geta fylgt því.

Nemendur FSu eiga hrós skilið fyrir frábæra ferð og voru skólanum sínum til mikils sóma.

 

jöz.