ÁFANGAMESSA – FJÖLBREYTNI Í FYRIRRÚMI

Áfangamessa er orðinn fastur liður í starfsemi FSu. Þá setja kennarar skólans upp bása eða kynningarborð á sal skólans (Gaulverjabæ) og nemendur kynna sér fjölbreytt námsframboð. Að þessu sinni verður sá dagur MIÐVIKUDAGURINN 2. OKTÓBER. Tæplega eitt þúsund nemendur stunda nám við FSu og hefur fjöldi nýnema við skólann aldrei verið meiri. VALDAGUR verður síðan 9. október næstkomandi.

Iðn- og starfsnámsbrautir eru sex við skólann. Í hársnyrtiiðn, matvæla- og ferðagreinum, húsasmíði, rafvirkjun, vélvirkjun og á sjúkraliðabraut. Stúdentsbrautir til bóknáms eru sex. Í alþjóðasamskiptum, félagsgreinum, náttúrufræðigreinum, íþróttum, viðskipta- og hagfræðigreinum og á svokallaðri opinni línu. Stúdentsbrautir til starfsnáms eru þrjár. Í búfræði, hestamennsku og listgreinum. Þá er rekin sérnámsbraut þar sem einstaklingsmiðað nám fer fram fyrir fatlaða og nemendur með greiningar. Garðyrkjunám sem stundað var við Landbúnaðarháskóla Íslands hefur nú flust til FSu og er hægt að stunda það á sex brautum. Í blómaskreytingum, garð- og skógarplöntun, í lífrænni ræktun matjurta, ylrækt, skrúðgarðyrkju og á námsbraut skógar- og náttúru,

Óhætt er að fullyrða að nám í FSu sé fjölbreytt enda þjónar skólinn víðfeðmu svæði frá Þorlákshöfn í vestri til Vestur-Skaftafellssýslu í austri. „Skólinn er ekki einnar gerðar og hann er einn af sómum Suðurlands” sagði kennari skólans um daginn og bætti við að nám í honum væri nánast hægt að stunda ævina á enda.

Ljósmyndin er frá hausti 2022 og sýnir kynningu á textílnámi.

jöz /ss