Beinakerling í FSu
Á degi íslenskrar tungu 16. nóvember ár hvert er til siðs að gera sér dagamun í FSu sem íslenskukennarar skólans hafa umsjón með. Frá því að þessi siður var tekinn upp hafa ýmsar uppákomur farið fram í miðrými skólans sem á hátíðarmáli kallast Loftsalir. Í ár þótti tilhlýðilegt að varða hina fjölbreyttu og stundum torsóttu leið íslenskunnar í gegnum aldirnar. Af þeirri ástæðu var henni reist Beinakerling sem blasti við nemendum og starfsfólki á leið þeirra í og úr kennslustund. Nemendur lögðu síðan vel valin orð i vörðuna, fleygar tilvitnanir, tökuorð eða nýyrði, vísur eða kvæðisbúta, myndmál af ýmsu tagi, einstakar setningar úr gömlum stafsetningaræfingum eða annað það sem talist getur til lifandi íslensks máls. Ekki var um neinn orðhengilshátt að ræða eða hálfkveðnar vísur. Með þessu athæfi sínu fetuðu nemendur FSu í fótspor forfeðra sinna og -mæðra sem stungu vísum í vörður. Þessar vísur voru stílaðar frá beinakerlingunni til þeirra sem um veginn fóru og voru oft næsta klúrar. Fussumsvei.