Ferð nokkurra kennara og skólameistara á BETT sýninguna í London 24 – 27. janúar.
Á hverju ári er haldin tæknisýning/ráðstefna í London þar sem helstu nýjungar í skólakerfinu, bæði tæknilegar og fræðilegar, eru tíundaðar fyrir fróðleiksþyrsta kennara og skólastjórnendur. Í lok janúar fóru fjórir starfsmenn FSu á Bett, skólameistari, fjármálastjóri og tveir kennarar.
Til að átta sig á umfangi sýningarinnar má benda á að í þetta sinn komu um 35 þúsund manns á sýninguna, það voru um 850 fyrirtæki og stofnanir sem sýndu vörur sínar og einnig voru haldnir um 100 fyrirlestrar í 6 fyrirlestrarsölum um nýungar í skólastarfi og kennslufræðum.
Það sem var áberandi þetta árið var þrívíddargrafík, vélmenni og forritun, svo eitthvað sé nefnt. Í fyrirlestrum var mikil áhersla lögð á smiðjur og „vaxtasjálf“ , þ.e. að nemendur sætu ekki fastir í þeirri hugsun að þeir geti ekki lært erfiða hluti. Sem dæmi um fyrirlesara má nefna Richard Browning sem fjallaði um verkefnið sitt að smíða flugbúning „Iron man“ sem virkar í raun og veru en vissulega aðeins eftir ótal mistök. Hann hélt því fram að besta leiðin til að læra væri að gera mistök og reyna svo að bæta sig. Hægt er að sjá búninginn og tilraunir Richards hér: https://youtu.be/JinhIHIF8Eo
Þá flutti Stephen Heppell prófessor frá Madríd mjög áhugaverðan fyrirlestur um fjölbreytileika kennsluaðferða og kennsluumhverfis. Inntak hans var í stuttu máli allar aðferðir virka. Allt frá því að rækta blóm í kennslustofum til að bæta loftgæði og andrúmsloft í stofunni í að nota sandfyllt vesti til að þyngja ofvirka nemendur og hægja á þeim. Hann fjallaði einnig um mikilvægi þess að nemendur gætu verið hreyfanlegir í rýmum skólanna, það væri örvandi og efldi námshæfni þeirra.
Ráðstefna sem þessi uppfyllir margar þarfir og flestir finna áhugaverða bása eða fyrirlestra til að skoða, prófa eða hlusta á.