FERÐIN YFIR FIMMVÖRÐUHÁLS

Í áfanganum ÍÞRÓ2JF02 við FSu (Íþróttir - jökla og fjallgöngur) er lögð áhersla á krefjandi fjallgöngur ásamt undirbúningsfundum og æfingagöngum. Gönguleiðir eru langar og krefjandi og því þurfa nemendur sem velja þennan áfanga að búa yfir úthaldi og þolinmæði. Haustferð áfangans var farin mánudaginn, 5. september síðastliðin undir stjórn kennaranna Ásdísar Bjargar Ingvarsdóttur og Sverris Geirs Ingibjartssonar.

Það voru 21 nemandi og þrír kennarar sem lögðu af stað frá Iðu (íþróttahúsi FSu) með rútu kl. 8:00 um morguninn. Gangan hófst frá Skógum kl. 10:00 og endaði í Básum og þeir sem voru fyrstir lentu þar um klukkan hálf sjö um kvöldið en gangan tekur að jafnaði 9 til 10 klukkustundir. Eftir gönguna var ekið heim á Selfoss. Að sögn Ásdísr voru ferðalangarnir einstaklega heppnir með veður.

„Við gengum á stuttbuxum og bol, jafnvel ber að ofan, allan daginn. Sólin skein og skyggni til allra átta. Á leiðinni má vel sjá ummerki hlýnunar jarðar en þar sem áður voru snjóbreiður eru núna dalir og jökulleifar. Einstaklega falleg leið þar sem gengið er upp með Skógá með allri sinni fossa dýrð. Upp á hálsinum sjálfum er staðið á milli tveggja jökla með sand allt í kring. Þá taka náttúruöflin aftur við með gígunum Magna og Móða. Að endingu tekur Þórsmörkin við með grænar og skógivaxnar hlíðar með útsýni yfir allt Syðra-Fjallabak. Krakkarnir voru frábærir, jákvæð, hvetjandi, hjálpsöm og sýndu hversu öfluga einstaklinga við erum með í skólanum okkar.”

 

ábi / jöz