FJÖLBREYTT MÁLSTOFA SJÚKRALIÐABRAUTAR

Miðvikudaginn 19. apríl - síðasta vetrardag - kynntu útskriftanemar af sjúkraliðabraut FSu lokaverkefni sín á málstofu í kennslustofum 3 og 4 í Iðu. Fólki var boðið á viðburðinn til að hlusta og sjá og mættu um 25 manns fyrir utan þá 10 nema sem kynntu lokaverkefni sín. Að sögn Írisar Þórðardóttur hjúkrunarfræðings og kennara á sjúkraliðabraut er þessi viðvburður alltaf eins og velkomin vorkoma. Að hennar sögn voru „verkefnin hugmyndarík og mjög vel fram sett af öllum nemendum sem voru sér og skólanum til mikils sóma.” Fjölbreytni viðfangsefnanna var mikil og má hér á eftir glöggva sig á þeim og nemendunum sem gerðu þeim skil.

Guðrún Elísa Gunnarsdóttir fjallaði um brjóstakrabbamein, Sara Lind Scheving Aronardóttir um mænuskaða, Anna Aðalheiður Arnardóttir um fósturmissi, Jóhanna Fjóla Sæmundsdóttir um svefn og heilsu, Rakel Eir Jónsdóttir um Sorg og sorgarviðbrögð, Hallgerður Höskuldsdóttir umm litla fyrirburara, Viktoría Kristín Guðmundsdóttir um tónlistarmeðferð fyrir heilabilaða, Dagmar Gestsdóttir um MS sjúkdóminn, Bergþóra Stefánsdóttir um hjartaáföll og loks Hulda Gunnarsdóttir um kvíðaraskanir.

Í lok málstofunnar var boðið upp á hnallþóru og kaffi fyrir viðstadda og nemar fengu rós í hnappagatið.

 

íþ / jöz