FRÆÐSLA OG FJÖR Á NÝNEMADEGI

Hefð er fyrir því að halda svokallaðan nýnemdag haust hvert áður en hefðbundin kennsla hefst. Mánudaginn 19. ágúst mættu um 280 nýnemar til leiks í FSu og hafa aldrei verið fleiri. Dagskrá nýnemadagsins var þéttskipuð að venju en nemendur fóru á milli fjölmargra kynningarstöðva í sínum umsjónarhópum. Markmið þessara kynninga er að nýir nemendur eigi auðveldara með að átta sig á skólaumhverfinu, bæði í rafrænum og raunheimi, fyrstu kennsludagana.

Fjölmargt starfsfólk skólans kemur að skipulagi dagskrárinnar. Meðal annars er farið með nemendur um öll þrjú húsnæði skólans, Odda, Hamar og Iðu, kynningar eru á bókasafni og þjónustu skrifstofu, náms- og félagsráðgjafar kynna sína þjónustu, sérstakar tölvustöðvar eru til þess að nemendur geti tengst kennslukerfinu Innu og í framhaldi Office pakkanum sem og þráðlausa neti skólans. Nemendur eru leiddir í gegnum hin dularfullu heiti og skammstafanir áfanga skólans, imprað á þrepum, stundatöflur og stokkakerfið skoðað sem og mætingareglur og nemendafélagið kynnir sína fjölbreyttu starfsemi. Nýnemarnir stoppa í mötuneytinu, bæði til að nasla en líka til að fá upplýsingar um tilhögun þar hvar gómsæti er í boði alla daga.

Þetta er gríðarmikið upplýsingamagn á tiltölulega skömmum tíma og heilmikið inn að taka því í raun er allt nýtt. Nýr skóli, nýtt námsumhverfi og ákaflega mikið af nýju fólki í lífi hvers nýnema. Krakkarnir voru til fyrirmyndar og öll dagskráin rann ljúflega og endaði á fjöri sem nemendafélag skólans sá um.

ár / jöz