FSu Í UNDANÚRSLIT GETTU BETUR
Síðasta viðureign átta liða úrslita GETTU BETUR fór fram í kvöld. FSu atti kappi við hafnfirska Flensborgara og hafði sigur 21 stig gegn 14. Lið FSu skipa Ásrún Aldís Hreinsdóttir, Elín Karlsdóttir og Heimir Árni Erlendsson og stóðu sig eins og hrífandi keppnismenn í hvítum liðsbúningi sem Elín hafði hannað með aðstoð Fab Lab tækninnar. Á upphandlegg búninganna kom fyrir talan 86 sem vísar í upphafsár Gettu betur sem (nota bene) FSu vann í úrslitaviðureign gegn þessum sama hafnfirska skóla.
Keppnin að þessu sinni var spennandi framan af. 11 stig FSu gegn 8 stigum Flensara eftir hraðaspurningar og þá sóttu Hafnfirðingar á í byrjun bjölluspurninga og komust yfir um tíma en eftir góðan árangur í vísbendingaspurningum varð ljóst að fátt myndi koma í veg fyrir sunnlenskan sigur að þessu sinni. Fjórir framhaldsskólar eru því komnir í undanúrslit: VA, MR, FG og FSu og kemur það í hlut FSu að mæta Austfirðingum í VA laugardagskvöldið 11. mars.
Tvennt verður að minnast á í lok þessarar fréttar. Annað er skemmtiatriði FSu sem flutt var af hæfileika búntunum Emelíu Hugrúnu og Sigríði Fjólu – frumsaminn tónlist í fönkstíl og skapandi skólasöngur sem kallast Við erum FSu. Virkilega flott atriði. Hitt er kómískt svar Flensborgara við þeirri spurningu hvort þau væru með einhver lokaskilaboð til FSu. Svarið var JÁ og svo kom: Selfoss er ekki til. Það er ljóst að Hafnfirðingum varð ekki að ósk sinni í kvöld : - )
jöz.