GEÐLESTIN OG EMMSJÉ GAUTI
Heimsóknir eru mikilvægar í skólastarfi og því fjölbreyttari sem þær eru því betra. Og þó seint sé er nauðsynlegt að greina frá einni september heimsókn þann 19. þess mánaðar í FSu en þá renndi GEÐLESTIN sér inn í aðalrými skólans og hélt erindi um geðfræðslu og mikilvægi öflugrar geðræktar. Geðlestin er samstarfsverkefni Geðhjálpar og 1717 síma Rauða krossins og styrkt af hinu opinbera. Markmiðið er að ræða við ungt fólk um geðheilsuna og hvernig best sé að rækta hana og vernda. Nemendur eru hvattir til þess að tjá tilfinningar sínar, spyrja spurninga og ræða við foreldra eða kennara um amstur og mótbárur daglegs lífs.
Heilbrigðar venjur skipta þar miklu máli, að iðka þakklæti og eiga sér áhugamál, hreyfa líkamann, borða holla fæðu, fá nægan svefn, rækta með sér seiglu og þrautseigju, sýna öðrum tillitssemi og tjá sig um tilfinningar sínar svo eitthvað sé nefnt. Tónlistarmaðurinn EMMSÉ GAUTI fylgdi með þessari september lest Geðhjálpar og Rauða krossins og braut upp hefðbundna dagskrá með eftirminnilegu og taktföstu stuði.
jöz.