Hátíðarhöld á sumardaginn fyrsta í Garðyrkjuskólanum
13.04.2023
Löng hefð er fyrir því að halda upp á sumarkomuna í Garðyrkjuskólanum á Reykjum. Opið hús á Reykjum er fastur liður hjá fjölda fólks. Í ár standa nemendur við Garðyrkjuskólann fyrir hátíðinni og þau eru búin að skipuleggja glæsilega samkomu.
Meðal þess sem boðið verður uppá er kynning á námi við Garðyrkjuskólann og FSu, markaðstorg með nýtt grænmeti, veitingasala, ýmiskonar fræðsla og afþreying fyrir unga sem aldna. Stórglæsileg túlípana sýning verður í garðskálanum þar sem hægt verður að skoða um 80 afbrigði af túlípönum.
Eftir hádegið verður hátíðardagskrá þar sem Garðyrkjuverðlaunin 2023 verða afhent.
Mætum öll og fögnum sumarkomunni saman.
Húsið verður opið kl. 10:00-17:00