Leiklistarnemendur frumsýna

Nemendur í leiklist frumsýna verkið Iris næstkomandi miðvikudag.
Nemendur í leiklist frumsýna verkið Iris næstkomandi miðvikudag.
Nemendur í leiklist í FSu sitja ekki auðum höndum þessa dagana. Þau frumsýna verkið Iris eftir Brynhildi Guðjónsdóttur og Ólaf Egil Egilsson í leikstjórn Guðfinnu Gunnarsdóttur, miðvikudaginn 10. apríl kl. 20:30 í litla leikhúsinu við Sigtún.
Verkið fjallar um fjallar um viðburðaríkt líf Irisar, ungrar stúlku, sem á erfitt með að fóta sig í grimmum heimi.
Hópurinn hefur lagt mikið á sig til að æfa undanfarið og mætt á æfingar utan skólatíma. Hópurinn er í góðu samstarfi við Leikfélag Selfoss sem veitir hópnum aðgang að húsnæði sínu og aðstoðar við ljósahönnun og kynningar.
Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. 
Hér má nálgast viðburðinn á fésbókinni.
 
Verkið verður einning sýnt í Hveragerði á lokahátið Þjóðleiks á Suðurlandi þann 27. apríl.
 
Þjóðleikur er leiklistarverkefni haldið að frumkvæði Þjóðleikhússins í samstarfi við fjölmarga aðila á landsbyggðinni. Leikhópum ungs fólks á aldrinum 13-20 ára er boðið að setja upp eitt af þremur nýjum leikverkum sem skrifuð eru sérstaklega fyrir Þjóðleik í hvert sinn. Við uppsetninguna njóta ungmennin stuðnings fagaðila í Þjóðleikhúsinu í formi námskeiða, bæði í Þjóðleikhúsinu og í heimabyggð, og lýkur verkefninu með leiklistarhátíð í viðkomandi landshluta.
 
Þess ber einnig að geta að sami hópur tekur þátt í tónleikunum "Raddir sunnlenskra ungmenna", sem er samstarfsverkefni með unglingakór Selfosskirkju. Tónleikarnir verða í Selfosskirkju sunnudaginn 7. apríl kl. 20.