Linuxtölvum fjölgar í FSu
Síðasta vetrardag var vinnutölva kerfisstjóra uppfærð sem ekki er í frásögur færandi nema vegna þess að stýrikerfi tölvunnar er af tegundinni Linux. Þetta er fyrsta vinnutölva starfsmanns FSu sem nýtir þetta stýrikerfi en Linux kerfið hefur samt verið notað samfellt á ýmsum netþjónum skólans síðan 1997. Tölva kerfisstjórans er þó ekki fyrsta vinnustöðin með Linux kerfinu í skólanum því það hefur verið keyrt á tveim borðtölvum bókasafnsins til reynslu síðastliðinn vetur. Ennfremur hafa verið gerðar tilraunir með notkun þess á tveim fartölvum í kennslustofu á vorönn. Þessi notkun á Linux kerfinu kemur til móts við stefnu stjórnvalda um frjálsan og opinn hugbúnað frá í desember 2007 þar sem kemur fram að opinberir aðilar eigi ekki að verða of háðir einstökum hugbúnaðarframleiðendum og þjónustuaðilum, sem og að nemendur í menntastofnunum landsins eigi að fá tækifæri til að kynnast og nota frjálsan hugbúnað til jafns við séreignahugbúnað.
Á myndinni má sjá skjáskot af linuxkerfinu eins og það birtist notendum.