Niðurstöður úr eineltiskönnun
Á kennarafundi 4. janúar kynnti Þorlákur H. Helgason niðurstöður eineltiskönnunar sem lögð var fyrir nemendur FSu í lok haustannar 2009. Um 670 svöruðu eða um 70%. Einelti mældist mun minna en í sambærilegum skólum í Noregi og Sviþjóð, um 1,7% á móti 4-5%, en FSu er fyrsti framhaldsskólinn hér á landi til að leggja slíka könnun fyrir. En þó niðurstöðurnar séu að flestu leyti jákvæðar fyrir skólann er ýmislegt sem hægt er að bæta, svo sem að þolendur finni meiri hvatningu til að segja frá reynslu sinni, og að þeir sem verða vitni að einelti taki eindregna afstöðu gegn því með gerðum sínum. Þá kom fram í könnuninni að meðal yngstu stúlknanna er allmikill ótti við einelti þó þær telji sig ekki hafa orðið fyrir slíku. Könnunin virðist staðfesta að skólabragurinn í FSu sé vinsamlegur að flestra mati.