Samningur um skólaakstur undirritaður
Samtök sunnlenskra sveitarfélaga munu framvegis sjá um rekstur skólaaksturs fyrir FSu. Samningur um þetta fyrirkomulag var undirritaður í vikunni, en hann felur í sér að allir nemendur skólans sem skráðir eru í skólaakstur fá fullan aðgang almenningssamgöngum SASS. Skólaaksturskerfið bætist þannig við almenningssamgöngur og verður ekið á þeim akstursleiðum allan ársins hring. Strætó bs. mun sinna þjónustu- og upplýsingagjöf vegna akstursins í samræmi við núgildandi samning Strætó og SASS.
Samningurinn gildir til 31. desember 2018, en aksturinn verður boðinn út fljótlega og miðast við að hefjast við upphaf næsta skólaárs.
Frá undirskrift samningsins, Elfa Dögg Þórðardóttir, formaður SASS og Örlygur Karlsson, skólameistari FSu handsala samninginn. Fyrir aftan eru frá vinstri, Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri SASS, Aðalsteinn Sveinsson, varaformaður SASS, Ari B. Thorarensen, formaður skólanefndar FSu, Haraldur Eiríksson, fjármálastjóri FSu og Sigurður Sigurjónsson, lögfræðingur. Myndina tók Magnús Hlynur Hreiðarsson.