TARK hlaut fyrstu verðlaun
Þann 8. mars 2012 gerðu mennta- og menningarmálaráðuneytið og sveitarfélög sem eiga aðild að Fjölbrautaskóla Suðurlands með sér samning um stækkun á verknámsaðstöðu skólans. Í framhaldi var gerð frumathugun, þarfagreining unnin og byggingarnefnd skipuð. Ákveðið var að bjóða til opinnar samkeppni um hönnun á stækkun verknámsaðstöðunnar og skipaði mennta- og menningarmálaráðherra dómnefnd í desember 2012. Í samkeppnislýsingu kemur fram að stækkuninni er ætlað að bæta aðstöðu fyrir metnaðarfullt verk- og starfsnám, að nýbyggingin skuli falla vel að núverandi húsnæði, bæði innra fyrirkomulagi og ytra útliti og nauðsyn fyrir sveigjanleika í skólastarfi. Samkeppnin var hönnunarsamkeppni, opin öllum sem uppfylltu skilyrði samkeppnislýsingar. Hún var auglýst í blöðum hérlendis, á vef Ríkiskaupa og á EES-svæðinu sl. vor. Skilafrestur var 24. apríl 2013. 25 tillögur bárust og voru 24 tillögur metnar. Dómnefnd mat þær út frá þeim áherslum sem lagðar voru og veitti þeim umsögn, sem birt er í sérstökum bæklingi. Dómnefndin leitaði einkum eftir snjöllum hugmyndum með það að meginmarkmiði að finna tillögu sem leysir viðfangsefnið á heildstæðan hátt með vandaðri og góðri byggingarlist. Einnig að tillagan væri í samræmi við áherslur sem fram komu í samkeppnislýsingu. Ákveðið var að veita þremur tillögum verðlaun, þremur tillögum viðurkenningu með innkaupum og þremur tillögum viðurkenningu sem athyglisverðum tillögum. Allar vinningstillögurnar svara væntingum sem lýst er í keppnislýsingu, en niðurstaða dómnefndar er að veita tillögu nr. 16 frá TARK - Teiknistofan Arkitektar fyrstu verðlaun. Í hönnunarhópi stofunnar eru Ásgeir Ásgeirsson, Ásmundur H. Sturluson, Halldór Eiríksson, Hlín Finnsdóttir og Michael Blikdal Erichsen. TARK - Teiknistofan Arkitektar hlaut fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni um stækkun á verknámsaðstöðuFjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Niðurstöður voru kynntar og verðlaun afhent við athöfn í húsnæði skólans. Teiknistofa arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar ehf. hlutu önnur verðlaun. Þriðju verðlaun hlaut Arkitektastofan OG ehf.
Allar tillögurnar verða til sýnis í skólanum til mánaðarmóta.