Aðalfundur 2013

Foreldraráð Fjölbrautarskóla Suðurlands 2013-2014

Aðalfundur foreldraráðs Fjölbrautarskóla Suðurlands (samhliða fræðsluerindi frá SAFT) haldinn í 
sal Fjölbrautarskólans miðvikudaginn 30. október 2013 og hófst kl. 20:05.

Dagskrá:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar um störf og starfsemi.
3. Umræður um skýrslu stjórnar.
4. Breytingar á lögum.
5. Kosningar í stjórn.
6. Önnur mál.

Auk þriggja stjórnarmanna í foreldraráði og tveggja skólastjórnenda í FSu voru fjórir forráðamenn 
mættir. 

Gengið var til dagskrár:
 
  1. Sigþrúður Harðardóttir formaður setti fundinn og kynnti stjórn félagsins. Sigþrúður tilnefndi Lúðvík Bergmann sem fundarstjóra og var það samþykkt. Sigþrúður tilnefndi Þorvald H. Gunnarsson sem fundarritara og var það samþykkt. Fundarstjóri tók við stjórn fundarins og kynnti dagskrá.
  2. Skýrsla stjórnar. Skýrsla Foreldraráðs FSu 2012-2013. Stjórn Foreldraráðs Fjölbrautaskóla Suðurlands hefur fundað þrisvar sinnum frá síðasta aðalfundi en auk þess haft mikil samskipti gegnum tölvupóst. Skólameistari sat alla fundi ráðsins að hluta til eða öllu og félagsmála- og forvarnarfulltrúi sat einn fund.
    Foreldraráð á samkvæmt lögum félagsins einn áheyrnarfulltrúa með málfrelsi í skólanefnd Fjölbrautaskólans, en þannig verður til tenging milli foreldrafélagsins og skólanefndarinnar. Formaður sat tvo skólanefndarfundi á árinu. Auk þess sat formaður kynningarfund samtakanna Heimila og skóla á árinu, en þangað voru boðaðir forsvarsmenn foreldraráða allra framhaldsskóla á landinu. Þar kom margt áhugavert fram sem m.a. hefur komið inn í fundarefni ráðsins á árinu.Hlutverk foreldraráðs er samkvæmt lögum nr. 92 frá 12 júni 2008 að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann að efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda. Félagsmenn eru sjálfkrafa allir foreldrar og aðrir forráðamenn ólögráða nemenda skólans.

    Foreldrafélagið hefur rætt ýmislegt sem það telur falla undir hagsmunamál nemenda. Margsinnis hefur verið rætt innan foreldraráðsins hvernig auka megi tengingu milli skólans og heimilanna. Ráðið er þess fullvisst að með meiri samskiptum þá verði foreldrar/forráðamenn meðvitaðri um nám barna sinni og geti frekar veitt stuðning og hvatningu.

    Foreldrafélagið hefur rætt mikilvægi þess að upplýsingagjöf og samskipti milli foreldra og skólans verði aukin og þannig minnki þessi skörpu skil sem eru á milli skólastiga. Og það séu hagsmunir nemenda til lengri tíma litið að foreldrar séu meðvitaðir um skólastarfið. Í þessum tilgangi hefur Foreldraráð útbúið ,,tékklista“ eða litla handbók fyrir foreldra, þar sem fram kemur það helsta sem skiptir máli að vita varðandi skólann, félagslífið og starfsemina.Allar upplýsingar sem verða á listanum má finna nánari útfærslu á, á heimasíðu skólans, en það er von okkar að listinn verði foreldrum hvatning til að leita þeirra upplýsinga og nýta þær í samskiptum við skólann, börnunum til hagsbóta.

    Talsvert hefur verið rætt um skólaböllin og í fyrsta sinn í haust – að fyrirmynd annarra skóla – komu foreldrar að ballinu með því að vera með fulltrúa á staðnum. Er það von okkar að þetta samstarf eigi eftir að vaxa og verða sjálfsagður hluti af skemmtanahaldi skólans. Foreldraráð lýsir yfir mikilli ánægju með þá ákvörður skólayfirvalda að hafa böllin lokuð, þ.e. eftir að nemandinn er kominn inn á ballið getur hann ekki farið út aftur, nema á afgirt svæði utan við ballstaðinn. Er það trú okkar að þetta komi í veg fyrir óþarfa ráp út í bíla og minnki áfengisneyslu á meðan á dansleik stendur.

    Foreldrarélagið hefur fjallað um málefni sem við teljum snerta hag nemenda og má þar nefna nýjar mætingareglur, mötuneytið, samgöngumálin, brottfall, félagslíf og valdaga. Foreldraáð fékk á árinu netfang, þar sem foreldrar fá tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og/eða koma með tillögur varðandi starfið. Netfangið er foreldrarad@fsu.is. Ráðið hefur einnig í hyggju að stofna facebook- síðu þó enn hafi það ekki komist í framkvæmd.

    Það er stutt hefð fyrir foreldrastarfi við framhaldsskóla, en ég vil hvetja foreldra fjölbrautaskólanema að taka þátt í starfi ráðsins og kynnast þannig betur því starfi sem fer fram innan skólans. Að höfðu samráði við skólayfirvöld var ákveðið að þetta haustið skyldi aðaldfundurinn ekki haldinn í tenglsum við kynningarfund foreldra nýnema að hausti eins og verið hefur. Ákveðið var að standa fyrir fyrirlestri fyrir alla foreldra í október og halda aðalfundinn í tengslum við hann. Því erum við hér samankomin í tengslum við erindi Hafþórs Birgissonar um netnotkun unglinga. Þar sem foreldraráð hefur ekki fjárreiður var ákveðið að leita til fyrirtækja og félaga á svæðinu um styrk til verkefnisins. Það voru Landsbankinn á Hvolsvelli, Kvenfélag Selfoss og Kvenfélagasamband Suðurlands sem styrktu félagið til að bjóða upp á fræðsluerindið.  

    Hér á eftir verður kosið í stjórn félagsins. Þar vantar einn aðalmann og tvo til vara og vil ég hvetja foreldra til að bjóða sig fram í stjórn. Félagið hefur, eins og áður segir, ekki fjárreiður svo þetta snýst ekki um fjáraflanir, heldur er þetta kjörið tækifæri til að kynnast starfi skólans. Það er afar mikilvægt að stjórnarmenn komi af öllum svæðum skólahverfis Fjölbrautaskólans því hagsmunir nemenda eru ólíkir eftir því hvar þeir búa.

    Að lokum við ég þakka fráfarandi stjórn fyrir samstarfið – einkum varamönnunum sem komu inn tóku að fullu þátt þar sem aðalmenn duttu fljótt út. Sjálf gef ég kost á mér til áframhaldandi formennsku og hljóti ég kosningu hlakka ég til að takast á við þetta skemmtilega starf næsta árið.  

    Sigþrúður Harðardóttir, formaður.
     
  3. Umræður um skýrslu stjórnar. Engar umræður urðu og telst skýrslan því samþykkt.
     
  4. Breytingar á lögum foreldraráðs – formaður dreifði tillögunni og færði rök fyrir breytingunni.

    Lagt til að breyta grein 4 sem hljóðar svo: Á aðalfundi skal kjósa fimm manna aðalstjórn og eru annað árið kosnir tveir stjórnarmenn en hitt árið þrír. Auk þess skal kjósa tvo í varastjórn 3 til eins árs í senn. Varamenn færast upp sem aðalmenn og kosnir eru nýir varamenn. Skal formaður kosinn beinni kosningu en stjórnin skiptir með sér verkum að öðru leyti. Stjórn félagsins tilnefnir einn heyrnarfulltrúa í skólanefnd. Leitast skal við að skipa stjórnina fólki úr sem flestum þeirra sveitarfélaga sem standa að skólanum. Stjórn félagsins skal fylgja samþykktum aðalfundar. Hún skal halda gerðabók þar sem gerð er grein fyrir starfsemi félagsins og stjórnarfundum. Einnig skal birta fundargerðir á vef skólans.  Greinin verði svona eftir breytingu: Á aðalfundi skal kjósa fimm manna stjórn. Formaður skal kosinn beinni kosningu en aðrir stjórnarmenn skipti með sér verkum. Varamenn fyrra árs færast upp í aðalstjórn, sé þess kostur, og kosnir nýir varamenn. Þannig er komið í veg fyrir algera endurnýjun stjórnar.

    Breytingin var samþykkt samhljóða.
     
  5. Kosningar í stjórn. Sigþrúður bauð sig fram til áframhaldandi formennsku í foreldraráði FSu.  Það var samþykkt með lófataki. Lúðvík og Þorvaldur bjóða sig áfram fram til setu í ráðinu og verða nú tveir af fjórum aðalmönnum ráðsins. Eitt foreldri gaf kost á sér utan fundar til setu í ráðinu en það er Kristín Magdalena Ágústsdóttir. Var það einróma samþykkt. Eftir á að kjósa einn aðalmann í stjórn og tvo varamenn. Óskað var eftir tilnefningum á fundinum en engin barst og enginn gaf kost á sér. Fundarmenn fela stjórn að leita að aðalmanni og varamönnum svo ráðið verði fullmannað.
     
  6. Önnur mál: a) Þorvaldur kynnti gátlista foreldraráðs. Gátlistanum var dreift á meðal fundarmanna. Ánægja er með bæklinginn. Hann verður sendur til forráðamanna nemenda undir 18 ára í tölvupósti en einnig verður bæklingurinn settur á heimasíðu FSu.
Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 20.30. Boðið upp á kaffi og meðlæti og fyrirlesari SAFT tók við.
 
Fundarritari: Þorvaldur H. Gunnarsson.