Fundur 2014 16.09
Fundur Foreldraráðs FSu 16. september 2014
Mættir: Elín, Kristín, Olga Lísa, Lúðvík og Þorvaldur. Fríða og Sigþrúður boðuðu forföll.
Fundur settur kl. 18.05 á kaffistofu starfsmanna í FSu.
Dagskrá:
1. Dagsetning aðalfundar Foreldraráðs FSu.
2. Önnur mál.
- Rætt um tillögu að dagsetningu fyrir aðalfund Foreldraráðs FSu. Ákveðið að boða til fundar þriðjudaginn 14. október. Tímasetning ákveðin síðar. Foreldraráð mun funda 6. október vegna undirbúnings. Rætt um að gátlisti foreldraráðs verði tilbúinn fyrir fundinn til dreifingar.
A. Olga sagði frá starfinu í byrjun haustannar: Góð mæting var á kynningarfund foreldra nýnema en um 70 manns mættu.
Það er fækkun í nemendahópnum. Bæði er það í nýjum árgangi en einnig hafa aðrir nemendur verið að hætta m.a. vegna mætingamála. Í skólanum eru nú rétt rúmlega 900 nemendur. Olga nefndi að uppi væru áhyggjur af vaxandi fjölda nýnemenda með miklar sérþarfir, en það eykur álag á stoðkerfi skólans. Og ennfremur hefur það aukist að nýnemendur eru skráðir inn í skólann án nokkurs vitnisburðar. Verið er að vinna í upplýsingaöflun um málið en fara þarf yfir þetta með menntamálaráðuneyti, ekki síst vegna fjárhags skólans.
Það er nokkuð um veikindi í starfsmannahópnum, m.a. langtímaveikindi. Mönnun hefur því verið þung í vöfum. Ritari skólans hefur látið af störfum og verið er að skoða umsóknir um starfið. Í sumar kviknaði í tölvurými skólans og þurfti að endurnýja allan búnað. Það er þó allt að komast í gott lag aftur.
Nemendafélagið er mjög öflugt í ár. Fulltrúarnir félagsins munu taka þátt í námskrárgerð í vetur.
Námskrárgerð er hafin en tafir hafa orðið á þeirri vinnu m.a. vegna ónógs fjármagns. Stefnt er að ný námskrá verði tilbúin fyrir næsta haust.
Umgengni í húsinu hefur verið mjög slæm af hálfu nemenda. Er það miður. Rætt um ástæður og möguleg viðbrögð. Verður væntanlega til umræðu á skólafundi 1. október nk.
Busaballið var haldið nýlega í Hvíta húsinu á Selfossi. Það gekk ágætlega fyrir sig þó svo að ölvun hafi verið nokkur. Fjórir foreldrar, þar af þrír pabbar og ein mamma, tóku á móti nemendum fyrir utan ballstaðinn (frá kl. 21-23 eða þangað til að húsinu var lokað). Fulltrúar frá Björgunarsveit Árborgar voru á staðnum til að aðstoða starfsmenn í gæslu og mæltist það mjög vel fyrir. Ballinu lauk kl. 01 og gerði lögreglan athugasemd vegna þessa. Það þýddi að ballgestir streymdu í miðbæ Selfoss til áframhaldandi skemmtanahalds. Olga taldi það vart geta talist á ábyrgð skólans en mögulega þarf að skoða reynsluna af breyttum balltíma. Ennfremur þarf að herða eftirlit með gestalista.Í tengslum við busaballið var rætt um ástand á heimavist en þar er eftirlit of lítið, m.a. með gestakomum um nætur og helgar. Það hefur reynst erfitt að halda úti eftirliti vegna kostnaðar en rekstrargrundvöllur heimavistarinnar er ekki mjög traustur um þessar mundir.
1. október nk. verður skólafundur haldinn frá kl. 13-16 (sjá m.a. tilkynningu í Dagskránni). Er það almennur fundur opinn skólasamfélagi FSu. Rætt verður um framtíðarsýn skólans. Fundarformið er þjóðfundarform, þar sem fundargestir sitja við nokkur borð og á hverju borði verður fundarstjóri. Vonast er til að um 200 manns mæti, þar af um 70 fulltrúar nemenda. Skýrsla verður gefin út með niðurstöðu fundarins og munu upplýsingarnar nýtast í yfirstandandi námskrárvinnu.
Olga vék af fundi kl. 18.45.
Ýmislegt annað. Rætt um fundarboð vegna aðalfundar og almennt um skólastarfið.
Fundi slitið kl. 19.15.
Fundargerð ritaði Þorvaldur H. Gunnarsson.