Aðalfundur 2024

Aðalfundur Hollvarðasamtaka Fjölbrautaskóla Suðurlands 24.maí 2024

Mættir: Vera, Andrea, Anna, Örlygur, Hjörtur og Helgi starfsmaður stjórnar. Sigþrúður boðaði forföll.

  • Vera formaður setti fund kl. 16.00 og var stungið uppá Örlygi sem fundarstjóra og undirritaðri sem ritara. Samþykkt samhljóða.
  • Ritari las fundargerð síðasta aðalfundar og var hún samþykkt.
  • Formaður flutti skýrslu stjórnar frá síðasta ári. Þar er sagt frá því helsta í starfinu, s.s. fundahöldum, verðlaunaafhendingum við brautskráningu og öðrum styrkjum til nemenda en á síðasta ári var auk þess veittur styrkur til kaupa á sjónvarpsskjá fyrir nýstofnaða pípulagningadeild, leigður salur fyrir 40 ára stúdenta og námsefni keypt fyrir erlenda stúdenta sem er verkefni sem haldið verður áfram með. Auk þess verða samtökin tengiliður milli skólans og Landsvirkjunar vegna styrks þeirra við rafmagns- og vélvirkjadeildar vorið 2024. Eitt helsta mál liðins starfsárs var varsla myndefnis í eigu skólans auk viðtala við eldri starfsmenn. Á síðasta ári var tekið viðtal við Heimi Pálsson fyrsta skólameistara skólans. Aðrir fastir liðir voru reifaðir í skýrslunni svo sem útgáfa fréttabréfs og innheimta félagsgjalda, uppfærsla félagatals og ársreikningar samtakanna. Skýrslan samþykkt samhljóða.
  • Anna lagði fram reikninga félagsins í forföllum gjaldkera fyrir árið 2023. Rætt um útgjöldin, sem eru að venju aðallega styrkir, um vaxtakjör og nauðsyn þess að endurskoða þau nú í ljósi vaxtabreytinga. Ítrekað frá fyrra fundi að athuga vaxtakjör og reikninga fyrir þjónustugjöld. Einnig rætt um að gera skurk í að ná inn fleiri styrktaraðilum þar sem fyrirtækjum hefur farið fjölgandi á svæðinu. Reikningarnir samþykktir og undirritaðir.
  • Tillaga stjórnar um að árgjaldið 2024 verði óbreytt; 2000 krónur á einstaklinga og 5000 krónur á fyrirtæki var samþykkt samhljóða.
  • Kosning stjórnar. Stjórnarmenn gefa kost á sér áfram og var það samþykkt samhljóða. Andrea verður áfram fulltrúi starfsmanna og Helgi starfsmaður stjórnar. Enginn hefur verið með okkur frá Nemendaráði þetta árið en áætlað að reyna að gera bragarbót þar á.
  • Kosning endurskoðenda. Þeir verða áfram Ásmundur Sverrir Pálsson og Gunnar Bragi Þorsteinsson.
  • Önnur mál:
  • Rætt um geymslu myndefnis og Helgi hefur heyrt í UT en fékk lítil viðbrögð, kom með hugmynd um að við ættum kannski að opna sjálf heimasíðu. Hann hefur líka verið í sambandi við Stefnu um uppfærslu á heimasíðu okkar.
  • Hjörtur Þórarinsson ætlar að koma sínu efni sem formaður Hollvarða til Þorsteins hjá Héraðskjalasafni. Hann minntist einnig á þá hefð að Hollverðir hafa verið viðstaddir ,,krýningu“ nýrra skólameistara og taldi það yrði að halda í þá hefð. Fráfarandi skólameistari afhendir verðandi skólameistara lykil en Hollverðir gefa bolla/krús. Athöfnin mun fara fram í ágúst.

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 16.30

Anna Árnadóttir ritari