Fréttabréf 2004

Fréttabréf nr. 2 - maí 2004
 

Kæri Hollvörður


Um leið og við sendum þér gíróseðil fyrir félagsgjaldi árið 2004 viljum við þakka þér stuðninginn og segja nokkrar fréttir af högum samtakanna okkar sem nú eru orðin tveggja ára.

 

Árgjald þessa árs er óbreytt ; kr. 900 fyrir einstaklinga en 3.600 kr. hjá fyrirtækjum.

 

Í stjórninni sem kosin var á aðalfundinum 25. apríl 2003 voru Hjörtur Þórarinsson formaður, Anna S. Árnadóttir gjaldkeri, Sigurður Eyþórsson ritari, Valgerður Sævarsdóttir fulltrúi starfsmannafélags F.Su. og Már Ingólfur Másson fulltrúi nemendafélags F.Su. 
Már hefur nú látið af störfum en í stað hans hefur NFsu tilnefnt Magnhildi Ingólfsdóttur sem fulltrúa sinn í stjórnina. Valgerður Sævarsdóttir hefur einnig látið af störfum sem fulltrúi Starfsmannafélags F.Su. og hefur félagið tilnefnt Nönnu Þorláksdóttur sem fulltrúa sinn í hennar stað. Þær eru hér með boðnar velkomnar til starfa.

 

Nú hefur verið ákveðið að boða til aðalfundar samtakanna föstudaginn 21. maí í F.Su. Þessi dagur er jafnframt útskriftardagur vorannar í skólanum. Útskriftin er kl. 14.00 og hefst fundurinn eftir kaffið að lokinni útskrift, væntanlega um kl. 16.30. Við vonumst til að sjá sem flesta félagsmenn þar.

 

Markmið samtakanna okkar er annars vegar að auka tengsl Fsu við fyrrum nemendur sína og aðra þá sem bera hag skólans fyrir brjósti, hins vegar að styrkja og efla skólann eftir fremsta megni, fjárhagslega eða á annan hátt, en einnig og ekki síst að rækta og alefla samband félagsfólks sín á milli.. Þetta viðfangsefni er stöðugt í mótun, en hefur hingað til falist helst í því að styrkja góða útskriftarnemendur og önnur verkefni skólanum til heilla.

 

Stjórn Hollvarðasamtakanna samþykkti á sínu fyrsta starfsári að veita námsstyrk til þess nemanda eða nemenda er fremst stæðu í námsafköstum meðal jafningja sinna við lokapróf frá skólanum á hvorri önn. Hinn 23. maí 2003 hlaut Helga Ýr Erlingsdóttir þennan styrk kr. 50.000, en hinn 20. des sl. hlutu þær Eyrún Anita Gylfadóttir og Auður Örlygsdóttir 30.000 króna styrk hvor. Formaður samtakanna, Hjörtur Þórarinsson afhenti styrkinn fyrir hönd okkar.

 

Á aðalfundi 2003 var einnig samþykkt að veita kór Fsu 100.000 króna styrk í tilefni 20 ára afmælis hans.

 

Undirbúningur er hafinn að söguritun skólans 1991-2001 sem yrði framhald söguritunar fyrsta áratugs skólans 1981-1991 sem þegar hefur verið gefin út. Stjórn Hollvarðasamtakanna hefur samþykkt fyrirheit um 100.000 króna styrk til verkefnisins.

 

Stjórnin vill endilega heyra frá félagsmönnum og eru allar hugmyndir og ábendingar um starf samtakanna vel þegnar. Hægt er að senda Önnu Árnadóttur gjaldkera tölvupóst á netfangið annas@fsu.is og Sigurði Eyþórssyni ritara á netfangið sigey@framsokn.is.

Tengsl við árgangahópa hafa nokkuð verið rædd m.a. um að hafa samband við 5, 10 ára og 20 ára árganga af hvorri önn fyrir sig. Meðan takmörkuð hefð hefur náð að festast þá geta þessi samtök styrkt þann hátt að eldri árgangar komi á útskriftarhátíðir og rækti samband sitt við skólann um leið og þeir hitta gamla skólafélaga. Hollvarðasamtökin munu áfram fjalla um þau mál. Við útskrift 23. maí og 19 .desember 2003. færðu eldri ágangar skólanum fjárupphæð sem tengd var sérstöku verkefni og greint var frá við skólaslitin.

 

Við síðustu uppfærslu á félagatali voru 233 einstaklingar og 66 fyrirtæki skráðir félagar. Við viljum benda á að hægt er að skrá sig í samtökin á heimasíðu skólans - http://holt.fsu.is/namskra/hollverdir.html

 

Útskriftarnemendur hvers árs eru skráðir inn árið eftir útskrift og mun gefast kostur á að ganga til liðs við samtökin ef þeir kjósa. Þeir greiða þó ekki félagsgjald fyrr en ári eftir námslok í Fsu.

 

Um leið og við kveðjum og vonumst til að sjá þig á aðalfundinum 21. maí þá hvetjum við þig einnig til þess að fylgjast með veffréttum á vef skólans fsu.is 

 


Stjórnin