30 ára stríðið óútkljáð.
„Þeir unnu naumlega að þessu sinni, höfðu sigur í fyrri hálfleik, við unnum seinni lotuna en með heldur minni mun“, sagði Ingis Ingason aðspurður um úrslit í sextugasta einvígisleiknum milli Hyskis Höskuldar og Tapsárra Flóamanna. „Stærst var þó spil nr. 4 þar sem 34 impar skiptu um eigendur og enginn varð eftir hjá okkur“, sagði Ingis og stundi þungan. „Hjarta gosinn, maður minn, hjarta gosinn, aldrei skal ég vanmeta hjarta gosann“, kom líkt og slitin upptaka úr skjalasafni Stasi, „oh, mein Gott“.
Já, tímamótaatburður er að baki. Þessar tvær briddssveitir hafa háð harða baráttu í 30 ár og laugardaginn 4. nóvember var keppni númer 60 háð á heimavelli Hyskisins, Merkurlaut. Eftir ítarlegar mælingar komust menn að því að spilastaðurinn væri í Flóahreppi, sem hefði átt að reynast Tapsárum Flóamönnum hagsælt, en orðtækið: „Enginn er spámaður í sínu föðurlandi“, virtist sterkara þegar upp var staðið.
Þrátt fyrir tapið er munurinn á sveitunum svo naumur að stækkunargler dugar vart til að mæla þar á milli. Báðar sveitir eru með 30 vinninga, Tapsárir Flóamenn eru með 4826 stig(imp) en Hyskið með 4749 en Hyskið hrósar sér af fleiri árssigrum eða 16 á móti 14.
Hinn raunverulegi sigurvegari kvöldsins var þó óumdeilanlega Lundinn, sem reiddi fram dýrindis veislurétti eins og honum er einum lagið og kunna „heimamenn“ honum góðar þakkir fyrir.