35 ára afmæli FSu
Hefðbundið skólastarf var brotið upp um hríð í gær, 13. september, í tilefni af 35 ára afmæli skólans. Nemendur og starfsfólk tóku þátt í ratleik þar sem leysa átti þrautir við hina ýmsu staði þar sem kennt var á árdögum skólans. Þar er átt við hina frægu „hlaupabraut“, en fyrstu ár skólans var kennt í rýmum vítt og breytt á Selfossi áður en nýbyggingin Oddi var tekin í notkun 1987. Að ratleik loknum var samkunda í Iðu þar sem Olga Lísa Garðarsdóttir skólameistari hélt tölu, Hannes Stefánsson, þýskukennari rifjaði upp byrjunarár FSu og Sverrir Ingibjartsson íþróttakennari og fyrrum nemandi á hlaupabrautinni sagði sögur. Svanur Ingvarsson og Þórarinn Ingólfsson reyndu á raddbönd áhorfenda og Kór FSu tók lagið.
Að dagskrá lokinni tók við pylsu- og kleinuát, en nemendur á grunndeild matvæla- og ferðagreina steiktu 1000 kleinur í tilefni dagsins. Kennsla hófst svo að nýju eftir hádegi. Núverandi og fyrrverandi starfsfólk hittist svo í lok dags í hátíðarkaffi og spjalli. Þar afhentu heldri starfsmenn sem látið hafa af störfum skólanum blómvönd og Ágústa Ragnarsdóttir, myndlistakennari, rifjaði upp ræðu sem hún flutti við vígslu Odda. Myndirnar tóku Örn Óskarsson, en fleiri myndir frá deginum má finna á fésbókarsíðu skólans.