Á prjónunum í FSu
Ýmislegt er á döfinni í vetur hjá starfsfólki FSu auk kennslunnar. Hér eru nokkur dæmi: Fyrir 1. september þarf að liggja fyrir viðbragðsáætlun vegna inflúensu. Einnig þarf að kynna og gera virk Viðbrögð við áföllum. Haldið verður áfram innleiðingu framhaldskólalaganna frá 2008 og hert á vinnu varðandi námskrá, námsbrautir og áfangagerð. Unnið verður áfram að sjálfsmati og úrbótum í skólastarfinu skv. áætlun. Áfram verður unnið að aðhaldi í fjármálum skólans til að mæta miklum niðurskurði á fjárframlögum til hans. Unnið verður að því að bæta þjónustu við nemendur af erlendum uppruna. Þá verður unnið að þremur þróunarverkefnum sem hlutu styrk úr Þróunarsjóði framhaldsskóla. Styrkur upp á 1, 1 milljón fékkst í verkefnið: Olweus, aðgerðaáætlun gegn einelti. Styrkur fékkst upp á 500.000 kr. í Þróun námsbrautar í hestamennsku og einnig fékkst styrkur upp á 1.6 milljónir í verkefnið Námskrárgerð og almenn þróun í námi og kennsluháttum í tengslum við innleiðingu nýrra framhaldsskólalaga.