AÐ GERA GOTT FYRIR SAMFÉLAGIÐ

Lifandi og virkt félagslíf nemenda í framhaldsskóla er ekki síður mikilvægara en námið. Sumir segja að það skipti meira máli. Eftir styttingu náms til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú dró úr virku félagslífi. Nú er komin reynsla á skerðinguna og nemendur laga sig að breyttum aðstæðum. Virkt félagslíf setur mark sitt á skólastarfið og kom það heldur betur í ljós í síðustu viku þegar GÓÐGERÐARVIKAN var haldin að frumkvæði nemenda.

Það er svo mikil góðsemi og samfélagsþjónusta sem fylgir góðgerðaviku. Að þessu sinni ákvað Nemendafélag FSu að safna fyrir PÍETA en það eru samtök gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Eftir ýmsar áskoranir og skemmtun í vikunni þar sem skólameistari og formaður nemendaráðs voru ataðar rjóma eða nemandi var límdur upp á eina súlu skólans eins og krossfestur. Demantur var settur í tönn Þórunnar skólaliða og valdir kennarar áttu að mæta í grímubúningi. Íslenskudeild keppti við raungreinadeild skólans í vítakeppni og valdir starfsmenn valhoppuðu í vinnunni á ákveðnum degi. Mötuneytið mætti í FROZEN búningum. Bara brot af atburðum.

Ellen Calmon framkvæmdastýra Píeta samtakanna kom á lokahátíð góðgerðarvikunnar sem haldin var í IÐU - íþróttahúsi FSu og tók við söfnuðum fjármunum sem að þessu sinni námu 360 þúsund - úr hendi Sigurðar Ernis Eiðssonar sem afhendi styrkinn fyrir hönd nemenda. Stemmningin var mjög góð og nemendur og kennarar peppaðir í alls konar leikjum og íþróttakeppni. Ef einhverjir vilja styðja Píeta samtökin í gegnum FSu þá er hægt að leggja inn á reikning nemendafélagsins 0189-26-006614 kt: 660490-2569.

jöz