Að sauma Íslandssögu
Nemendur og kennarar í áfanganum THL136 Textílhönnun fóru í vettvangsferð á Hvolsvöll, miðvikudaginn 6. nóvember sl.
Nemendum var skipt í hópa og fengu allir tækifæri til að spreyta sig á útsaum og prjónavinnslu. Annars vegar að sauma í Njálurefil, en refillinn er einstakt langtímaverkefni hóps kvenna og sveitafélagsins Rangárþings eystra. Lokið hefur verið við 11 metra af um það bil 90 metra "teiknimyndasögu" af Njálssögu, sem frumkvöðlar, heimafólk, gestir og gangandi sauma út í hördúk. Saumað er með hinum forna refilsaum, með íslensku, jurtalituðu ullargarni. Nemendur og kennarar höfðu ótrúlega gaman af verkinu, framhaldssaga fæddist og hver aðili tengdist sínum bút á persónulegan hátt.
Hins vegar var prjónastofan Glófi skoðuð, byrjað var á kynningu á prjónavélum sem hamast við að spýta úr sér íslenskri ullarvoð fyrir bæði Íslandsmarkað og Þýskalandsmarkað. Svo þarf að þvo, vinda, ýfa, þurrka, pressa, sníða, sauma og/eða pakka tilbúnum tískuflíkum eða voð. Þetta var sannarlega frábær dagur og nemendur stóðu sig vel í saumaskapnum og voru skólanum til sóma. Kristín Sigurmarsdóttir og Helga Jóhannesdóttir kenna textílhönnun við FSu.