AÐ SJÁ VEÐURFRÆÐINGA AÐ STÖRFUM
Nemendur í JARÐ3VE05 sem ígrunda veður og haffræði fóru í heimsókn á Veðurstofu Íslands þann 20. febrúar síðastliðinn. Kristín Hermannsdóttir veðurfræðingur tók á móti og fengu nemendur fræðslu um starfsemi veðurstofunnar og tækifæri til að koma með ýmsar spurningar.
Þar næst var gengið um híbýli veðurstofunnar og ýmsir krókar og kimar rannsakaðir að hætti vísindamanna. Lítið herbergi fyrir útvarpssendingar fannst og svo fengu nemendur að líta inn í spásalinn sem svo er kallaður. En þar er fylgst með jarðskrálftum um allt land en þó sérstaklega Reykjanesinu.
Einnig fengu nemendur fræðslu um svokallaða flugveðurspá sem miðar að því að gefa þeim sem stunda flug nákvæmustu leiðbeiningar sem hægt er um veðrið á ólíkum flugleiðum. Þá fengu nemendur að sjá veðurfræðinga að störfum en þar sem það var afar gott veður þennan dag stunduðu þeir yfirvegun og rósemd – í takt við veðrið. Loftmynd í nágrenni Íslands var greind þar sem öflugar eldingar mátti sjá.
Í heildina var þessi vettvangsferð sérlega fróðleg og skemmtileg og hver veit nema framtíðar veðurfræðingar Íslands hafi fæðst í henni.
hþs / jöz