Að velja námsleið að loknum grunnskóla - Að mörgu er að hyggja
Nú rennur upp sá tími þegar nemendur 10. bekkja velja nám að loknu skyldunámi grunnskólans. Á þessum tímamótum hafa ungmennin, í fyrsta sinn á námsferlinum, val um námsleið og skóla. Valmöguleikarnir eru fjölbreyttir og að mörgu þarf að huga. Að vera vel upplýstur um námstækifæri auðveldar flestum valið. Foreldrar eru einn þeirra áhrifavalda sem tengjast ákvörðunartöku ungmenna þeirra þegar kemur að vali á námsgrein og því er hlutverk þeirra mikilvægt. Með þessu greinarkorni viljum við vekja athygli á nokkrum atriðum sem gott er fyrir nemendur og forráðamenn að vita.
Fjölbrautaskóli Suðurlands tekur á móti öllum nemendum sem vilja stunda nám við skólann að loknum grunnskóla. Hér er fjölbreytt námsframboð. Allir ættu að geta fundið nám við hæfi, í samræmi við styrkleika og áhugasvið.
Nemendur sem eru að ljúka 10. bekk hafa forgang á iðn- og starfsnámsbrautir skólans, uppfylli þeir inntökuskilyrði brautanna. Vinsældir þessarra námsbrauta hafa aukist síðastliðin ár og námsplássin eru eftirsótt, enda starfsmöguleikar miklir að námi loknu. Síðastliðið haust komust færri að en vildu á sumar námsbrautirnar. Við heyrum stundum að nemendur ættu að klára stúdentsprófið fyrst og svo geti þeir farið í iðnnám, kjósi þeir það. Það er engin ein leið réttust í þessum efnum. Hafa ber í huga að sé þessi leið farin eru líkur á að námstíminn lengist þó nokkuð, það er ef nemandinn ætlar fyrst að ljúka stúdentsbraut (amk 3 ára nám) og svo iðnnámsbraut (2-4 ára nám). Skrái hins vegar nemandi sig beint á iðnnámsbraut við lok grunnskóla og taki bóklega áfanga samhliða náminu eru líkur á að hann geti lokið iðnnámsbraut og stúdentsprófi á 3-4 árum í stað 6-7 árum klári hann stúdentsprófið fyrst. Árafjöldi náms er þó bara ein hliðin á málinu, því mestu máli skiptir að nemandann velji námsleið tengda áhugasviði og framtíðarplönum. Það eykur líkur á betri námsárangri og almennri vellíðan.
Við hvetjum nemendur og forráðamenn til þess að skoða saman námsmöguleika að loknu grunnskólanámi. Í FSu verður opið hús þann 6. mars nk. kl 17-19 og þá getur verið gagnlegt að skoða skólann, námsframboð og spjalla við starfsfólk um komandi tíma.
Bestu kveðjur frá náms- og starfsráðgjöfum FSu
Agnes Ósk, Anna Fríða og Bjarney