Af fuglum himinsins

Dagana 23. til 26. janúar síðastliðinn var hin árlega Garðfuglaskoðun Fuglaverndar.

Alls tóku 149 athugendur þátt í garðfuglaskoðun að þessu sinni og skoðaðir voru fuglar í 115 görðum víða á landinu. Alls sáust 4353 fuglar af 16 tegundum í görðum. Eins og undanfarin ár tóku nemendur í Nát 103 í Fjölbrautaskóla Suðurlands þátt í garðfuglaskoðuninni, alls 52 nemendur.

Tilgangurinn með þessu verkefni er margþættur. Í fyrsta lagi eflir svona verkefni umhverfisvitund fólks og fær það til að huga að nánasta umhverfi sínu og því lífríki sem þar leynist. Einnig gefa niðurstöður svona rannsókna vísbendingar um fuglalíf á landinu og þróun þess í tengslum við uppbyggingu bæja og borga og vegna breytinga á búsvæðum og loftslagslagi.

Allir eru hvattir til að huga að smáfuglunum nú þegar hart er á dalnum. Fóðrun fugla í görðum og fuglaskoðun er áhugavert og skemmtilegt viðfangsefni fyrir unga sem aldna.