Afmælisgrein um stofnun FSu

Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi er einn fjölmennasti vinnustaður Suðurlands og „þegar á heildina er litið þá er enginn vinnustaður okkur dýrmætari,“ skrifar Hjörtur Þórarinsson, fyrrum skólanefndarformaður FSu og formaður Hollvarðasamtaka skólans í grein sem birt er á vef skólans í tilefni af 30 ára afmæli hans.

Hjörtur segir þó erfitt að meta og verðleggja þau miklu áhrif sem skólinn hefur og á eftir að hafa áfram á samfélagið. „Margfeldisáhrifin eru mikil sem tengjast þessari starfsemi.“ Hjörtur bendir á að starfsfólk skólans beri með sér mikla þekkingu sem nýtist í héraðinu, auk þess sem menningarleg áhrif vaxi stöðugt og komi í ljós.

Í grein sinni fer Hjörtur yfir aðdragandann að stofnun FSu árið 1981 og rekur hann til umræðu um, undirbúnings og setningar nýrra grunnskólalaga árið 1974. Skólinn var svo stofnaður 1981, en árið 1983 gerðust sýslurnar á Suðurlandi aðilar að honum.  Sömuleiðis fer hann yfir byggingarsögu Odda og þau viðbrigði sem urðu þegar nýtt skólahús var tekið í notkun í ársbyrjun 1987 og af var lögð „hlaupabrautin“, en kennslustaðir víðs vegar um Selfoss voru áður flestir níu talsins.Greinina má lesa í heild sinni hér.