ALGERLEGA SMURÐ SÖNGKEPPNI
GREASE var þema söngkeppni FSu þetta skólaárið sem vísar til ógleymanlegrar kvikmyndar með skötuhjúunum Danny og Sandy frá árinu 1978. Allur undirbúningur og umgjörð þessarar hátíðar var verulega smurð (í anda þemans) af reynslu og sköpun og nemendum skólans til mikils sóma. Þetta var örugglega í tuttugasta og eitthvað skiptið sem þessi keppni fer fram í FSu og að sögn Sirrýjar Fjólu Þórarinsdóttur formanns söngkeppnisnefndar er hún „ætíð glæsileg enda einn af stærstu viðburðum í starfi nemendafélags skólans.” Ellefu söngvarar tóku þátt, hljómsveit, tæknimenn, dómnefnd og fullt af kraftmiklum nemendum sem vinna að undirbúningi og baksviðs. Skólastarf er aldrei aðeins hægt að meta í stöðnum einingum heldur skiptir lifandi og skapandi félagsstarf ekki minna máli.
Þegar upp var staðið sigraði Elísabet Björgvinsdóttir keppnina með lagið A Natural Woman en Elísabet lenti í öðru sæti í söngkeppni skólans í fyrra. Í öðru sæti varð Hugrún Tinna Björnsdóttir með lag Beyoncé Daddy´s Lessons og í það þriðja settist Ásrún Aldís Hreinsdóttir með Rihönnu lagið Love on the Brain. Verðlaun fyrir frumlegasta atriðið hlaut Elín Karlsdóttir sem settist við hljómborðið og flutti lagið Echoes með Pink Floyd. Aðrir flytjendur og hljómsveit stóðu sig með mikilli prýði. Sigurvegari kvöldsins verður fulltrúi skólans í aðalsöngkeppni framhaldsskólanna sem fram fer á næsta ári.
Söngkeppnin hefur undanfarin ár verið haldið í IÐU – íþróttahúsi skólans og þarf því að umbylta öllu rýminu og breyta því í tónleikasal. Þessi umbreyting er alltaf athyglisverð (eins og sjónhverfing) og ljómar af töfrum ljósa og tónlistar. Hún vitanar líka um svo mikla elju nemenda að gera eitthvað annað og skapandi. Lyfta okkur upp úr hversdagslegum athöfnum í hæstu hæðir. Fullur salur áhorfenda (um 500 manns) gerir IÐU að algerlega nýjum stað.
Á meðan dómnefnd komst að niðurstöðu tróð hljómsveitin Koppafeiti upp með glans og danshópur frá dansstúdíói World Class flutti frábært atriði ásamt því að sigurvegari söngkeppni framhaldsskólanna frá því í fyrra, FSu-arinn Emilía Hugrún Lárusdóttir flutti tvö lög af hreinum tærleika.
jöz