ALÞJÓÐADAGUR KENNARA

Miðvikudaginn 5. október síðastliðinn var Alþjóðadagur kennara og var honum fagnað í Fjölbrautaskóla Suðurlands eins og um heim allan. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á því mikilvæga og margvíslega starfi sem kennarar gegna og um leið að efla samtakamátt þeirra. Og huga að því hvernig menntun barna verður best háttað í framtíðinni. En í gegnum fagmennsku sína og reynslu gera kennarar allt sitt til að mennta og móta hugi komandi kynslóða og skapa jákvæðan skólabrag í hvetjandi skólaumhverfi.

Á heimasíðu Kennarsamband Íslands er nokkrum spurningum varpað fram í tilefni dagsins: Hvernig væri heimurinn án kennara og er hægt að ímynda sér slíkan heim? Hvernig væri samfélagið sem við búum í? Hvað yrði um þróun og framfarir á öllum sviðum því öflugt menntakerfi er forsenda framfara? Hvernig myndum við viðhalda þeirri þekkingu sem við þegar búum yfir?

Í Fjölbrautaskóla Suðurlands starfa tæplega eitt hundrað kennarar í hinum margvíslegustu fögum innan bóknáms, verknáms, listnáms, náms í matvælagreinum, garðyrkju og íþróttaakademía svo nokkuð sé nefnt. Þeir héldu upp á daginn með kennslu nemenda sinna og gæddu sér, í morgunkaffinu ásamt sínu frábæra samstarfsfólki, á marsípan- og skúkkulaðitertum í boði kennarafélags skólans en núverandi formaður þess er Guðmundur Björgvin Gylfason : - )

jöz.