ATORKA OG ATHAFNASEMI Í TRÉDEILD FSu

Það er oft nóg að sýsla í trédeild FSu fyrir utan daglegt nám og störf. Öflug samskipti atvinnulífs og verknáms eru mikilvæg og felast meðal annars í stuðningi við tækjakaup og uppfærslu í öryggismálum. 17. október síðastliðinn var þar mikið um að vera þegar afhending vinnufatapakkans fór fram. Í leiðinni var haldið reisugildi á húsinu sem er í byggingu í porti verknámshússins IÐU. Fulltrúar frá BYKO, Snickers vinnufötum og Bosch verkfæra mættu og sáu um allar veitingar, hlaðborð í mat og drykk auk þess sem Bosch bíllinn mætti á svæðið troðfullur af verkfærum.

Frá BYKO fékk trédeildin Bosch handfræsara með öllum búnaði af bestu gerð og 18V auka rafhlöður í vélarnar sem til eru. Hagi (Snickers vinnuföt) færði deildinni stórt Hultafors hallamál af dýrustu gerð og stóran breytilegan vinkil af bestu gerð. Að sögn Lárusar Gestssonar fagstjóra er „samstarfið við þessa aðila okkur mikils virði og gerir skólabraginn í trédeild betri og öruggari. Gerir okkur líka kleift að fylgjast með og vera alltaf með góð og samkeppnishæf verkfæri fyrir nemendur okkar.”

Þriðjudaginn 28. nóvember síðastliðinn fengu nemendur og kennarar í trédeildinni dýrmæta heimsókn frá Þórhalli Matthíassyni og Magnúsi Halldórssyni frá Haga/Hilti þar sem hlýtt var á erindi þeirra um fallvarnir og fallvarnarbúnað en mikilvægi þess að fara reglulega yfir öryggismálin verður aldrei ofmetið. Í lokin fengu nemendur og trédeild veglegan skammt af öryggisgleraugum að gjöf.

lg / jöz