BÆTT NÁMSFRAMBOÐ OG AÐSTAÐA Á LITLA HRAUNI
Nú á þessari haustönn er í fyrsta skipti boðið upp á trésmíðaáfanga í skólanum á Litla Hrauni. Áfanginn er valáfangi þar sem nemendur kynnast grunnatriðum trésmíðinnar. Lögð er áhersla á að nemandinn tileinki sér faglega nálgun á þau verkefni sem unnin eru samhliða áfanganum. Kenndar eru samsetningar, lausnir og hugtök sem leggja grunninn að góðum vinnubrögðum við almenna trésmíði. Nemendur læra að meðhöndla og beita helstu tækjum og vélum sem notuð eru í smíðinni. Einnig er fjallað um tré sem smíðaefni og uppbyggingu þess. Sex nemendur eru í áfanganum, allir samstilltir og jákvæðir, mæta einstaklega vel og eru mjög áhugasamir um námið.
Til að styrkja þessa nýjung í kennslu fanganna voru keyptir fjórir hefilbekkir á trésmíðaverkstæðið og bæta þeir aðstöðuna til muna. Unnið er að því að bæta verkfærakostinn og að sögn Gylfa Þorkelssonar er ekki ólíklegt að sagðar verði fréttir af framvindu þess máls fljótlega.