Baráttudagur gegn homo-, bi- og transfóbíu

Alþjóðlegur baráttudagur gegn homo-, bi-  og transfóbíu (fælni gagnvart samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og transfólki) er haldinn 17. maí ár hvert, en þann dag árið 1990 var samkynhneigð tekin út af sjúkdómalista Alþjóða
heilbrigðisstofnunarinnar.

Fjölbrautaskóli Suðurlands tekur að sjálfsögðu þátt í að halda upp á daginn og vekja athygli á þessum mikilvæga málaflokki og flaggar þess vegna regnbogafánanum í dag, 17. maí

Regnbogalitirnir hafa verið sameiningartákn samkynhneigðra allt frá árinu 1978 þegar fyrsti regnbogafáninn var hannaður og saumaður í San Francisco og er í dag heimsþekkt tákn hinsegin fólks sem sést meðal annars í litavali merkis Samtakanna '78 og víðar.

Hómó-, bi- og transfóbía (e. homophobia, biphobia and transphobia) er lýst sem neikvæðum viðhorfum, tilfinningum og/eða neikvæðri hegðun gagnvart hinsegin fólki (t.d. gagnvart samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og transfólki). Það getur lýst sér í andúð, fyrirlitningu, lítilsvirðingu, fordómum, fælni eða jafnvel hatri gagnvart hinsegin fólki og er  oftast byggt á hræðslu og fáfræði varðandi málefni og líf hinsegin fólks. Hómófóbía og transfóbía er  enn í dag  vandamál bæði hérlendis og erlendis og hefur þessi hræðsla lengi leitt til mismununar,  sjúkdómsvæðingar,  kúgunar og ofbeldis gagnvart hinsegin fólki í gegnum aldanna rás.

Þeir sem vilja kynna sér málið betur er bent á vef samtakanna 78.