Berlínarferð
13 nemendur í efstu þýskuáföngunum dvöldu ásamt kennurum sínum, Brynju og Hannesi, í Berlín dagana 29.10. – 1.11. Upphaflega stóð til að heimsækja menntaskólann hennar Mareike, sem var skiptinemi í FSu í fyrra, en tveggja vikna haustfrí skólans stóð enn yfir. Hópurinn skoðaði helstu ferðamannastaði og upplifði sögu Þýskalands með heimsókn á gyðingasafnið, safn til minningar um helförina og safn sem sýnir lífið í gamla Austur – Þýskalandi. Að sjálfsögðu voru leifar Berlínarmúrsins skoðaðar á tveimur stöðum. Hápunktur ferðarinnar (í metrum) var Fernsehturm (sjónvarpsturninn). Á torginu við turninn birtist svo óvænt Þýskaland nútímans, þar sem hópur andstæðinga flóttamanna gekk fylktu liði með kröfuspjöld og heróp. Viðbúnaður lögreglunnar var sem sagt ekki vegna heimsóknar Fjölbrautaskólans.
Ferðin tókst í alla staði vel. Mjög samstæður hópur naut dvalarinnar með glaðværð og opnum huga gagnvart upplifunum borgarinnar. Nemendur lærðu á samgöngukerfi borgarinnar og beittu þýskukunnáttu sinni í verslunum og á veitingastöðum. Öll framkoma nemendanna einkenndist af háttvísi og voru þeir FSu svo sannarlega til sóma.
Á myndinni má sjá hópinn við Potsdamer Platz. Myndina tók áðurnefnd Mareike.
Brynja og Hannes