Bóhemtími í Bókakaffinu
Nemendur í íslensku 503, bókmenntasögu 20. aldar, hafa undanfarnar vikur lesið sér til um og rætt stefnur og strauma í ljóðlist á fyrri hluta 20. aldar. Þeir hafa krufið ljóðskáld, yrkisefni þeirra og form. Tilvalið þótti að lifa sig inn í tíðaranda skálda eins og Þórbergs Þórðarsonar, Halldórs Laxness, Tómasar Guðmundssonar og Steins Steinarr með því að hafa bóhem-kennslustund á Sunnlenska bókakaffinu 1. október. Nemendur sátu með kaffi-, te- eða kakóbolla í hönd innan um bækur og með utanaðkomandi, lágværan klið í eyrunum. Kristín Þórarinsdóttir, fjármálastjóri FSu, fræddi nemendur um kynni sín af Steini Steinarr, uppvöxt hans, ljóðagerð og annað það sem nemendurnir forvitnuðust um - en móðursystir Kristínar var eiginkona Steins. Einnig lásu nemendur upphátt ljóðabálkinn Tímann og vatnið í anda þess móderníska hugsunarháttar að "poem should not mean, but be". Þessi óhefðbundna kennslustund heppnaðist afar vel að sögn kennarans í áfanganum, Þórunnar Jónu Hauksdóttur.