Bókaveggur
Nú er í fyrsta sinn boðið á veggjalistaráfanga í myndlist. Í fyrra leituðu myndlistarkennarar skólans til Árborgar varðandi að fá að myndskreyta vegg er stendur við bílastæði FSu. Sveitarfélagið tók afar vel í beiðnina og settu það skilyrði eitt að myndverkið skildi þematengt og þemað væri Bókabæirnir austanfjalls. Í haust hafa nemendur áfangans unnið hörðum höndum við hugmynda- og skissuvinnu, svokallaðar rúðustækkanir og stenslamótun og loks er verkið komið á það stig að hægt er að fara út og mála! Þetta er mikil vinna og veðrið ekki alltaf hliðhollt þeim tímasetningum sem áfanginn hefur en þó er farin að koma ágætismynd á verkið. Að þessu sinni verður hálfur veggurinn þakinn myndverki en þessir myndir munu allar saman á endanum mynda eina heild. Kennarar eru Ágústa Ragnarsdóttir og Elísabet Harðardóttir.