BRAUTSKRÁNING SEM TÓKST MEÐ ÁGÆTUM

Þrátt fyrir verkfall kennara við FSu á síðustu önn tókst með samheldni og lausnamiðuðum aðferðum að koma námskipi FSu heilu í höfn. Allir lögðust á árarnar, stjórnendur, starfsfólk og nemendur. Uppskeran var laugardaginn 11. janúar og skólinn litaðist gulum ljóma.

Upphaf athafnarinnar var í höndum Stefáns Þorleifssonar sem margoft hefur komið að tónlistaruppeldi nemenda skólans. Píanóundirleikur hans og söngur nemandans Söru Sigríðardóttur á Vori í Vaglaskógi og á Esjunni eftir Bríeti ásamt kórsöngi var dásamlegt intró. Brautskráðir voru 34 nemendur að þessu sinni af 12 námsbrautum. 27 urðu stúdentar en 7 kláruðu nám sitt af öðrum brautum. Bókaverðlaun voru afhent fyrir einstakar námsgreinar og dreifðust prýðilega en DUX SCOLAE var Halla Þuríður Steinarsdóttir sem reyndar var fjarverandi í áframhaldandi námi í Danmörku og tóku foreldrar hennar við viðurkenningum.

Fulltrúi 40 ára stúdenta, Brynja Hjálmtýsdóttir flutti fróðlegt ávarp og færði skólanum myndverk ásamt staðfestingu á fyrirlestri frá hinum sigursæla handboltaþjálfara, Þóri Hergeirssyni en hann er einn af þeim sem útskrifaðist frá FSu fyrir fjórum áratugum.

Í jómfrúarræðu sinni lagði nýráðinn skólameistari Soffía Sveinsdóttir áherslu á gleðina sem fylgir dögum eins og þessum og uppskeruna að lokinni sáningu. Hvatti alla til að nýta gervigreind til góðra verka og viðhalda tungumálinu með lestri sem eflir orðaforðann. Að þekking og leikni í íslensku væri lykillinn að áframhaldandi námi enda er „móðurmálið undirstaða alls náms og kjarninn í sjálfsmynd þjóðar.” Hún minntist á á þau einkenni Íslendinga að bíta á jaxlinn og gefast ekki upp þó á móti blási. Í þeirri merkingu var verkfallið tímabundin hindrun sem þurfti að komast yfir og beindi þakklæti sínu til foreldra, nemenda og starfsfólks skólans og lagði áherslu á að FSu væri hornsteinn menntunar á Suðurlandi.

Noel Elías Chareyre flutti ávarp nýstúdenta á heillandi hátt þar sem þakklæti var honum ofarlega í huga og sú gagnkvæma virðing sem ríkir á milli kennara og nemenda skólans. Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir formaður skólanefndar og fyrrum frönskukennari Vera Valgarðsdóttir en núverandi formaður Hollvarða skólans hvöttu nemendur áfram með orðum og viðurkenningu.

Að lokum ber að geta framlags aðstoðarskólameistara Sigursveins Sigurðssonar að flytja annál liðinnar annar – og hefur það verið gert frá stofnun skólans árið 1981. Margt áhugavert bar þar á góma eins og skólameistaraskipti, fjöldi nemenda sem voru rúmleg 1200, málefni Garðyrkjuskólans sem nú heyrir undir FSu, félagslíf nemenda sem héldu kvöldvöku, nýnemaball, glæsilega söngkeppni og góðgerðarviku til styrktar PÍETA samtökunum ásamt því að standa sig prýðilega í Gettu betur. Vettvangsferðir nemenda voru tíundaðar á Fimmvörðuháls, Njáluslóðir og á sveitasetrið Dalbæ, til borgarinnar London og á leiksýningar svo nokkuð sé nefnt. Að endingu er hefð fyrir því að aðstoðarskólameistari vitni til hins nafnlausa skólaskálds sem starfar í gulum skóla og segir:

Önnin var ógnandi og grimm.

í upphafi bleik – en loks dimm.

Úr flugeldarykinu

féll hún með prikinu

tvö þúsund tuttugu og fimm.