Bridds-bikarinn í hús
Laugardaginn 20. september var háður síðari einvígisleikur ársins milli Hyskis Höskuldar og Tapsárra Flóamanna (bridgesveitar starfsmanna FSu). Spilað var í Bláfjöllum. Fyrir leikinn æfðu sveitirnar það sem á briddsmáli kallast að fara niður, og telst lítt til kosta, en í þetta sinn var það samdóma álit beggja sveita að sjaldan eða aldrei hafi slíku athæfi verð búin jafn glæsileg umgjörð. Þessi æfing hafði síðan þær afleiðingar að Hyskið fór sannfærandi niður á alslemmu í hjarta á meðan Flóamenn völdu óæðri lit, alslemmu í laufi, sem ekki var nokkur leið að koma niður. Þetta leiddi til þess að forskot Hyskisins og Höskuldar eftir fyrri einvígisleikinn tapaðist "niður" og enduðu Flóamenn uppi sem sigurvegarar þetta árið. Eftir 26 ára keppni er staðan jöfn, hvort lið hefur unnið 13 sinnum. Hyskið og Höskuldur þurfa þó að slá í klárinn ef þeir ætla að halda í við Flóamenn í impum talið. Þeir hafa þó ás upp í erminni, fyrrum heimsmeistara, sem þeir sýndu um helgina þó þeir hafi ekki notað hann í þetta skiptið nema til andlegra árása.