Byggingarnefnd vegna viðbyggingar verkkennslu
Um þessar mundir eru haldnir vikulegir fundir um viðbyggingu verknámshús við FSu. Um er að ræða 1600 fermetra hús sem áætlað er að tekið verði í notkun áramótin 2014 2015.
Löngu er orðið tímabært að efla kennsluaðstöðu iðngreina sem kenndar eru við skólann sem og að bæta við aðstöðu fyrir fjölsmiðju og kennslu annara verklegra áfanga. Þá er í skoðun að efla aðstöðu til margmiðlunar í viðbyggingunni. Lengi hefur verið rætt um að setja á stofn háriðnkennslu og er sá þáttur einnig í skoðun. Um leið og viðbyggingin rís, verður aðstaðan í núverandi húsnæði verkkennslu skólans endurbætt.
Ríkið greiðir 60% af kostnaði við bygginguna og sveitarfélög á Suðurlandi 40%. Á fjárlögum ársins 2013 var 274 milljónum úthlutað til byggingarinnar. Byggingarnefndin er skipuð: Þráni Sigurðsyni frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti sem er formaður nefndarinnar, Ara Guðmundssyni frá Verkís, sveitarstjórnarfólkinu, Ástu Stefánsdóttur framkvæmdastjóra Árborgar, Ísólfi Gylfa Pálmasyni sveitarstjóra Rangárþings eystra og Valtý Valtýssyni sveitarstjóra Bláskógarbyggðar, Vigfúsi Halldórssyni framkvæmdastjóra framkvæmda hjá Fasteignum ríkisins, Örlygi Karlssyni fyrrverandi skólameistara FSu og Olgu Lísu Garðarsdóttur skólameistaraFSu.