Eftirminnileg ferð til Barcelona
Þann 8. mars lögðu átta nemendur úr SPÆN2DD05 af stað til Barcelona til þess að svala þorsta sínum um spænska menningu; tveir farastjórar fylgdu þessum nemendum. Ferðin byrjaði á seinkun á fluginu út, það var þó ekki í nema einn og hálfan tíma. Það var nóg til þess að meirihluti hópsins náði að sofna fyrir flug. Þegar komið var til Barcelona var brunað á hostelið og tékkað sig inn. Hluti nemendanna fór á hinn sögufræga leik Barcelona og Parísar sem endaði með 7 mörkum (6-1 fyrir Barcelona). Á meðan á leiknum stóð fór hluti hópsins ásamt fararstjórum og snæddu ljúfengan spænskan kvöldverð. Í ferðinni voru fjöldinn allur af stöðum skoðaðir í borginni og við hvern stað áttu nemendur að flytja stutta kynningu um staðinn á spænsku. Þar má meðal annars nefna: La Sagrada Familia, Casa Batlló, Park Guell og Sant Pau. Hópurinn skellti sér á meiriháttar flamenco-sýningu sem heillaði nemendur upp úr skónum.Einnig smakkaði hópurinn Pinxos, sem eru tapasréttir frá Baskalandi. Reynt var á spænskukunnáttu nemenda í ratleik sem fararstjórar héldu fyrir nemendur á La Rambla, sem er aðalgata Barcelonaborgar. Gistiheimili nemenda var á hliðargötu La Rambla, svo nemendur voru nokkuð miðsvæðis í borginni. Ferðast var á milli staða með strætisvagni, neðanjarðarlest eða fótgangandi, og samtals voru gengnir rúmir 550 kílómetrar eða 60 kílómetrar á mann yfir alla ferðina. Á mánudeginum átti Eva kennari afmæli og upp á það var haldið með indverskum mat, nemendur lögðu saman í púkk og gáfu Evu gjöf til minningar um ferðina. Í frítímanum gat hver og einn upplifað borgina á sinn hátt, hvort sem það var að versla sér föt, eða sitja á kaffihúsi og upplifa menninguna. Það sem nemendur kyntust best var Siesta menning Spánverja og telja nemendur að það eigi að taka hana upp hið snarasta á Íslandi. Nemendur kynntust hvor öðrum betur og voru undir lokin orðinn góður og vel þéttur hópur. Ferðin heppnaðist vel og snéru allir mjög sáttir heim. Við viljum þakka öllum þeim sem komu að því að styrkja okkur kærlega fyrir.
Fyrir hönd nemenda SPÆN2DD05, Jakob Burgel og Katrín Stefánssdóttir.